Arðsemin hverfur úr greininni

Þingmennirnir fjórir og Egill Helgason í Silfri Egils í dag.
Þingmennirnir fjórir og Egill Helgason í Silfri Egils í dag.

„Ef þú tekur framsalið burt hverfur arðsemin úr greininni," sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag þar sem fjórir alþingismenn ræddu um nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða.

Í frumvarpinu, sem nú er til umfjöllunar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar, er gert ráð fyrir að endi verði bundinn á varanlegt framsal aflaheimilda.

„Þar með skerðist hagur þjóðarinnar þannig að ég skil ekki í mönnum að ætla að taka það skref að afnema framsalið," sagði Pétur. Hann sagðist heldur ekki skilja að til stæði að banna veðsetningu á kvóta. „Þá verða það aðeins moldríkir menn, sem geta staðgreitt," sem geta hafið starfsemi í greininni sagði hann. Þetta gerði það að verkum að nýliðun yrði aðeins í hendi þeirra ríku.

Pétur sagði hins vegar ljóst, að breyta þyrfti eignarhaldinu á aflaheimildunum og því væru væntanlega flestir útgerðarmenn sammála. Hann hefði sjálfur lagt til að heimildunum verði dreift til þjóðarinnar á 20-30 árum. 

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði í þættinum að frumvarpið væri málamiðlun og afrakstur af mikilli vinnu. Þá væri boðið upp á áframhaldandi samráð um málið.

Björn Valur sagði að það yrði að vera ljóst hver ætti auðlindina og hvernig ætti að fara með hana. Hann sagðist vera sáttur við þá málamiðlun, sem kæmi fram í frumvarpinu, að flestu en þó ekki öllu leyti. „Ég verð að viðurkenna það, að ég held að enginn þingmaður stjórnarflokkanna geti sagt það, að hann samþykki allt það sem þar kemur fram. 

Sjálfur sagðist Björn hafa sett mikla fyrirvara við að vera með mikið af aflaheimildum á leigumarkaði enda væri vond reynsla af slíku hjá nágrannaríkjunum; aðrar þjóðir væru að bakka út úr slíku kerfi.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að vissulega fæli frumvarpið ekki í sér málamiðlun, „þetta er ekki okkar lína," sagði hann en lagði þó áherslu á að í frumvarpinu næðust fram nokkur veigamikil aðalatriði. Jafnaðarmenn hefðu í 20 ár barist fyrir hugmyndum um veiðileyfagjald þannig að menn hafi nýtingarrétt en þurfi að skila arðinum til almennings. Í þessu frumvarpi sé þjóðareignin viðurkennd og mannréttindi virt þannig að nýliðun geti orðið í greininni. 

„Ég held að í heildina séum við flest í Samfylkingunni sátt við að reyna þetta; að gera það ekki er í raun uppgjöf fyrir þeim möguleika sem er núna," sagði Mörður.  „Við erum að ná þvílíkum áföngum í að breyta þessu kerfi að það væri heimskulegt að fara í fýlu vegna þess að við náum ekki öllu fram." 

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að Landssamband íslenskra útvegsmanna verði að horfast í augu við að það beri talsverða ábyrgð á því að þetta frumvarp sé komið fram. Útvegsmenn hefðu fyrir nokkrum árum farið af stað með þá umræðu, að hugsanlega væri kominn einskonar eignarréttur á sjávarauðlindinni og það hefði farið mjög öfugt ofan í marga.

Nú sé verið að leggja til að gerðir verði nýtingarsamningar um fiskistofnana til að tryggja að misskilningur af þessu tagi komi ekki aftur upp og að það felist eignarréttur í nýtingunni.

Þá  sagði Eygló, að það hefðu sennilega verið mistök á sínum tíma, að skattleggja ekki söluhagnað vegna aflakvótaviðskipta um 70-80%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert