Afar ólík sýn kom fram á nýtt lagafrumvarp um stjórn fiskveiða þegar Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, fjölluðu um málið í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
„Þetta eru grundvallarbreytingar, sem koma þessu þjóðfélagi örugglega til góða því við viljum ekki sjá, eins og var orðið hér á Íslandi, að hinir ríkari urðu ríkari og það þjappaðist allt á sömu hendur. Varðandi sjávarútveginn viljum við ekki að það haldi áfram að safnast áfram á fárra manna hendur heldur að fleiri hafi tekjur af þessu," sagði Lilja Rafney. „Allir munu græða."
„Það liggur algerlega fyrir að íslenskt samfélag mun tapa á þessu vegna þess að þetta leiðir til sóunar. Það er ekki að ástæðulausu sem við erum með skipulag í sjávarútvegi og það er ekki að ástæðulausu að aðrar þjóðir eru að fara sömu leið og við höfum farið. Það er vegna þess að við erum að reyna að hafa sem mest út úr þessu sem þjóð. Breytingarnar hafa það í för með sér að kerfið verður óhagkvæmara og það fæst minna út úr þessu," sagði Friðrik.