Fjórir prestar og tveir djáknar voru vígðir til þjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Þrír prestanna vígjast til þjónustu í norsku kirkjunni en norska útvarpið hefur eftir forsvarsmanni biskupsdæmisins á Møre að Íslendingar séu að leysa úr prestaskorti í Noregi.
Vígsluþegarnir voru Kristný Rós Gústafsdóttir, sem ráðin er til þjónustu sem djákni í Ólafsvíkur og Ingjaldshólsprestakalli, Þórey Dögg Jónsdóttir, sem ráðin er til þjónustu sem djákni í Fella og Hólakirkju, Sigurvin Jónsson, sem ráðinn hefur verið æskulýðsprestur í Nesprestakalli, Arndís Hauksdóttir, hefur verið ráðin prestur í Nord-Innherad prófastsdæmi í Niðarósbiskupsdæmi, Brynja V Þorsteinsdóttir, sem ráðin hefur verið prestur í Gauldal prófastsdæmi í Niðarósbiskupsdæmi og Þráinn Haraldsson, sem ráðinn hefur verið prestur í Álasundi, Nordre Sunnmøre prófastsdæmi, Møre-biskupsdæmi.
Í viðtali við norska ríkisútvarpið, NRK, segir Olav Gading, leiðtogi í biskupsdæminu í Møre, að farið sé að bera á prestaskorti í Noregi og sú þróun hafi verið undanfarin ár, að fleiri prestar fari á eftirlaun en vígjast til þjónustu í kirkjunni.
Ekki sé útlit fyrir annað en að þessi þróun haldi áfram, að minnsta kosti í Møre-biskupsdæmi. Líklegt sé að fleiri prestar verði ráðnir frá Íslandi en þar hafi fjármálakreppan valdið því að nýútskrifaðir prestar eigi erfitt með að fá störf í íslensku kirkjunni.
Gading segir, að íslenskir prestar njóti þess, að geta talað eitt Norðurlandamál og menningarlegur munur á íslenskum prestum og norskum sé ekki mikill.