Frumvörp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til nýrra laga um stjórn fiskveiða annars vegar og hins vegar til breytinga á gildandi lögum um stjórn fiskveiða, voru samþykkt í þingflokki Samfylkingarinnar eftir hádegið í dag.
Að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, voru frumvörpin samþykkt með fyrirvörum þingmanna um fjölmörg atriði og er því ljóst að þau munu þurfa að taka miklum breytingum í meðförum Alþingis til að hljóta brautargengi þar.
Báðir stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð, héldu sína þingflokksfundi eftir hádegið og luku þeim fyrir þingfundinn sem hófst núna klukkan 15:00.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri þingflokks VG, staðfestir einnig að frumvörpin hafi verið samþykkt í þingflokki VG nú í eftirmiðdaginn. Segir Bergur að ekki hafi verið settir neinir stórir fyrirvarar við málin af hálfu þingmanna VG og að nokkuð góð sátt hefði verið um þau á fundinum. Þingmenn átti sig hins vegar á því og reikni með því að málin geti þurft að taka einhverjum breytingum í meðförum þingsins.