Hinsegin dagar fengu mannréttindaverðlaun

Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, flytur ávarp í Höfða í …
Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, flytur ávarp í Höfða í dag.

Jón Gnarr, borgarstjóri, afhenti fulltrúum Hinsegin daga mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í Höfða í dag en 16. maí er  mannréttindadagur Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á þeim málum sem varða mannréttindi borgarbúa og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Hinsegin dagar voru stofnaðir árið 1999 og efndu samtökin til útihátíðar á Ingólfstorgi og sóttu um 1.500 manns hátíðina. Árið 2000 var fyrsta gleðigangan farin niður Laugaveg og hún hefur verið gengin árlega síðan, Talið er að hátt í 90.000 manns hafi fylgst með gleðigöngunni í ágúst á síðasta ári.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði við afhendingu verðlaunanna að samtökin væru vel að viðurkenningunni komin. Hinsegin dagar ættu stóran þátt í þeirri miklu viðhorfsbreytingu sem orðið hefur gagnvart samkynhneigð á Íslandi og endurspeglaðist það meðal annars í endurbótum á lögum sem bæta líf samkynhneigðra.

Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, tók við Mannréttindaverðlaununum fyrir hönd samtakanna. Verðlaunin eru keramiklistaverk eftir Einar Baldursson, íbúa á Sólheimum í Grímsnesi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert