Hundur beit bréfbera

Sjúkrabifreið flutti bréfberann á slysadeild.
Sjúkrabifreið flutti bréfberann á slysadeild. mbl.is/Eggert

Hundur réðist á konu í Mosfellsbæ í dag með þeim afleiðingum að hún tvífótbrotnaði. Þá beit hundurinn hana í kviðinn. Konan, sem var að bera út póst fyrir Íslandspóst, var flutt með sjúkrabíl á slysadeild og er hún nú á leiðinni í aðgerð skv. upplýsingum mbl.is.

Auk þess að fótbrotna þá hlaut konan bitsár á maga og er töluvert lemstruð eftir viðskiptin. Lögregla og sjúkralið var kallað á vettvang og var hún flutt á slysadeild. Tilkynning barst um kl. 11:30.

Lögreglan ræddi við hundaeigandann, sem var á staðnum þegar atvikið gerðist. Segir lögregla að hundurinn, sem er dalmatíuhundur, hafi verið í bandi en hann hafi náð að slíta sig lausan og ráðist geltandi og urrandi á konuna. Reyndi eigandinn að hemja hundinn.

Að sögn lögreglu er málið nú í höndum hundaeftirlits Mosfellsbæjar sem tekur ákvörðun um næstu skref.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandspóst, segir að því miður sé það mjög algengt að hundar ógni bréfberum við þeirra störf. Mörg dæmi séu um að bréfberar hafi slasast eftir viðskipti við hunda. 

Meðal þess sem Íslandspóstur geri sé að bjóða upp á námskeið fyrir bréfbera þar sem þeim er kennt að bregðast við ógnun hunda. 

Íslandspóstur reyni auk þess að fá hundaeigendur til að vinna með sér og gæta þess að hundarnir séu ekki lausir þegar bréfberar séu á ferðinni.

Aðspurð segir Ágústa að það sé í höndum starfsmannsins að leggja fram kæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert