Brotið blað í menningarsögunni

Eldborg, aðalsalur Hörpu.
Eldborg, aðalsalur Hörpu. mbl.is/Eggert

Sérstök umræða stendur nú yfir í borgarstjórn Reykjavíkur um tónlistarhúsið Hörpu. Sagði Jón Gnarr, borgarstjóri, m.a. að með opnun hússins hafi verið brotið blað í menningarsögu Reykjavíkur og landsins.

„Harpa mun hafa jákvæð áhrif á fjárhag borgarinnar og skapa störf og tekjur," sagði Jón. Hann sagði bókanir ganga vel, bæði á tónleika og ráðstefnur og að mikil bjartsýni ríkti hjá forsvarsmönnum Hörpu. Nefndi hann m.a. að áætlað væri að erlendir gestir á ráðstefnum hér á landi eru taldir eyða 4-500 evrum á dag og því væri greinilega um umtalsverðan ávinning að ræða fyrir borgina og landið allt.

„Harpa er sameiginlegt hús okkar allra og það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé hús fólksins og að allir séu velkomnir þangað," sagði Jón.  Hann sagði, að húsið ætti eftir að verða eitt af helstu kennileitum borgarinnar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, að það hefði verið mjög erfið ákvörðun á árinu 2009 að halda áfram byggingu hússins þrátt fyrir gerbreyttar forsendur.  Gengið hefði verið út frá því að ekki kæmu til aukin fjárframlög en ákveðið var árið 2004 og málið hefði verið unnið í mikilli sátt ríkis og borgar. 

Hún sagði, að gjarnan væri spurt hvort þurfi að styrkja rekstur hússins svo það geti staðið undir sér. Borgarráð hefði hins vegar ákveðið á sínum tíma að svo yrði ekki og það yrði þá að taka sérstaka ákvörðun ef leggja ætti húsinu til aukið fjármagn. Sagði Hanna Birna skýrt, að hún myndi ekki styðja slíka ákvörðun. 

Þá sagði Hanna Birna, að sér þætti hafa tekist vel til við bygginguna. „En það er algerlega á hreinu að þetta hús mun ekki standa undir sér nema þetta verði hús allra landsmanna, húsið okkar," sagði hún og bætti við, að ýmsar vísbendingar væru um að þannig yrði það. Þannig hefði verið ánægjulegt að koma í Hörpu sl. sunnudag þegar húsið var fullt af fjölskyldufólki.  

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, sagði í umræðunni, að áætlað væri að fimm daga ráðstefna í Hörpu skilaði um hálfum milljarði króna í íslenskt hagkerfi og væru nokkrar slíkar fyrirhugaðar á næstu árum. 

Þá sagði hann að húsið, með listaverki Ólafs Elíassonar, gæti laðað að sér erlenda gesti. „Harpan getur gert fyrir Reykjavík þar sem Guggenheimsafnið gerir fyrir Bilbao," sagði Einar Örn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert