Níu ára drengur stakk sig á sprautunál þegar hann var við leik ásamt tveimur vinum sínum í Árbænum seinni part sunnudags.
Móðurbróðir drengsins, Eyjólfur Páll Víðisson, segir þetta ekki í fyrsta sinn sem sprautunálar finnist á sama stað og hvetur foreldra til að vera vakandi fyrir því umhverfi sem börnin þeirra leika sér í.
„Hann var úti að leika sér og kemur síðan heim með nálarbox með nálum í og segir mömmu sinni að hann hafi stungið sig á þessu,“ segir Eyjólfur. „Hún fékk bara sjokk og fór með hann beint upp á spítala þar sem hann fór í viðtal og var skoðaður.“
Í gærmorgun hafi þau síðan farið aftur á spítalann þar sem tekin var blóðprufa og drengnum gefin mótefni gegn lifrarbólgu b og c og HIV-veirunni en hann mun þurfa að mæta í áframhaldandi lyfjagjöf; næst eftir mánuð, síðan þrjá mánuði, sex og loks eftir ár.
Eyjólfur segir að rannsókn standi yfir á nálunum en rúm vika muni líða þar til niðurstöður fást. Biðin sé þegar orðin móðurinni afar erfið.
„Hann gerir sér enga grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er,“ segir Eyjólfur um drenginn. „Hann er bara níu ára og skilur ekki viðbrögðin hjá mömmu sinni.“
Nálarboxið fann drengurinn á túni fyrir framan blokk í Hraunbænum en sjálfur býr Eyjólfur í nágrenninu og segir að vitað sé að í blokkinni búi fólk í neyslu. „Ég á sjálfur tvö börn sem ég hef hjá mér aðra hverja helgi og ég veit ekki hvernig ég hefði brugðist við ef þetta hefði komið fyrir þau,“ segir hann. Mikilvægt sé að foreldrar geri sér grein fyrir að í nágrenninu búi fólk sem er í neyslu og nálar á víðavangi séu fylgifiskar þess.
„Það hafa áður fundist nálar á þessu svæði og maður vill náttúrulega líka reyna að fá þá sem eru að henda þessu þarna frá sér til að henda þessu í ruslið í staðinn. Þeir gera sér kannski ekki grein fyrir því að það eru börn þarna fyrir utan sem geta stungið sig á þessu og fengið alvarlega sjúkdóma,“ segir Eyjólfur.
Ekki eru liðnar fleiri en tvær vikur síðan fimm ára drengur stakk sig á nál í Öskjuhlíð þegar hann var að leik með félögum sínum.