Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja, að rekstarafgangur borgarsjóðs Reykjavíkur á síðasta ári styðji þann málflutning sjálfstæðismanna, að ekki hafi þurft að grípa til þeirra gjaldskrár- og skattahækkana sem núverandi meirihluti ákvað um síðustu áramót.
Nærri 1,5 milljarða króna afgangur varð á rekstri borgarsjóðs og 13,7 milljarða króna afgangur hjá samstæðu Reykjavíkurborgar.
Sjálfstæðisflokkurinn segir, að þessi niðurstaða endurspegli góðan rekstrarárangur, sem byggi á síðustu fjárhagsáætlun og vinnu fyrri meirihluta undir forystu Sjálfstæðisflokks.
„Með niðurstöðu ársreiknings 2010 er endanlega staðfest að þær miklu hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í með aðgerðaráætlun vegna efnahagsástandsins í tíð fyrri meirihluta í samstarfi við starfsfólk, íbúa og borgarfulltrúa allra flokka hafa skilað sér í varanlegum rekstrarbata fyrir Reykjavíkurborg," er haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna, í tilkynningu frá flokknum.
„Borgarsjóður hefur alla burði til að leyfa borgarbúum að njóta árangurs þessa aðhalds eins og við gerðum á sínum tíma í stað þess að halda því að íbúum að verkefnið sé svo erfitt að það þurfi stöðugt að láta þá greiða meira bæði í formi hærri skatta og gjalda, en einnig með því að valda óvissu og uppnámi í kringum viðkvæmustu grunnþjónustu borgarinnar. Það er vond þróun og ber vott um að meirihlutinn ræður ekki við þetta stóra verkefni."