Sláandi niðurstöður um neyslu heimabruggs

Frumvarp um verslun með áfengi og tóbak var tekið fyrir …
Frumvarp um verslun með áfengi og tóbak var tekið fyrir á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. Heiðar Kristjánsson

Óhjákvæmilegt er að líta til sláandi niðurstaða um neyslu heimabruggs hér á landi við meðferð Alþingis á frumvarpi um verslun með áfengi og tóbak. Þetta segir í umsögn Félags atvinnurekenda en frumvarpið var rætt á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun.

Í umsögn Félags atvinnurekenda eru meðal annars gerðar athugasemdir við kaflann um hlutverk ÁTVR, en þar er vísað í umræðu frá Evrópu um skaðsemi áfengis og áhyggjur sérfræðinga þar. „Umræðan er þó nokkuð sundurlaus, þótt vissulega séu mikilvæg atriði nefnd. Það verður hins vegar að benda á, að þegar fjallað er um hlutverk ÁTVR - á Íslandi - er æskilegt að staðan á Íslandi sé skoðuð sérstaklega.“

Er í því ljósi vísað til að ekki sé í frumvarpinu, eða athugasemdum með því, bent á stöðu mála á Íslandi, s.s. varðandi breytingu á neyslumynstri og minnkandi opinbera sölu á áfengi, sem þó ætti að vera lykilatriði. „Það er óhjákvæmilegt annað en að benda á kannanir sem FA hefur latið gera á undanförnum misserum um neyslu á heimabruggi og smygluðu áfengi. Niðurstöðurnar eru sláandi - sérstaklega hvað varðar ungt fólk, en mikill meirihluti fólks á aldrinum 16-24 ára virðist leita út fyrir opinberan markað til að nálgast áfengi.“

Auðsjáanlega mikil landadrykkja

Félagið kannaði síðast umfang neyslu á sterku heimabrugguðu áfengi, svonefndum landa, seint á síðasta ári. Niðurstöðurnar voru meðal annars, að 43% 16-19 ára ungmenna sögðust hafa drukkið landa á síðasta ári og 60% þeirra höfðu orðið vör við neyslu landa á sama tímabili.

Svipaða sögu var að segja af hópi 20-24 ára. Í þeim hópi sögðust 35% hafa drukkið landa á síðasta ári og 64% séð til slíkrar drykkju. Eftir því sem aldurinn hækkaði minnkaði landadrykkjan en þó voru í hópi 24-29 ára um 28% sem viðurkenndu að hafa drukkið landa og um helmingur séð til einhvers drekka landa.

Úrtakið var 2.359 einstaklingar og svarhlutfall um 66%.

Áfengi á svörtum markaði til veitingastaða  

Ýmislegt fleira athyglisvert kom fram í umsögnum um frumvarp fjármálaráðherra. Samtök ferðaþjónustunnar benda þannig á, að samkeppnin við svarta áfengissölu sé gríðarleg á veitingahúsamarkaði. „[Þ]að ganga sögur um umfangsmikla sölu á „vodka“ í 20 lítra kútum sem m.a. veitingastöðunum er boðið til kaups. Verðið á lítranum er aðeins þriðjungur af því sem veitingahúsunum stendur til boða eftir löglegum leiðum.“

Samtökin telja að með því að bjóða veitingastöðum betri kjör, t.d. 50% afslátt af áfengisgjaldinu á móti auknu eftirliti, myndi það stórauka tekjur ríkissjóðs um leið og stoðir heiðarlegra veitingastaða yrðu styrktar.

Bruggfata.
Bruggfata.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert