Fréttaskýring: Koma á ótryggðum ökutækjum af götunni

Eigandi eða umráðamaður ökutækis hefur einn mánuð til að greiða iðgjald vátrygginga í vanskilum eftir kyrrsetningu þess eða flutning. Sé ekki greitt er heimilt að krefjast nauðungarsölu ökutækisins eða það selt til niðurrifs ef ætla má að hærra verð fáist þannig. Þannig verður það alla vega ef frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um ökutækjatryggingar verður að lögum.

Um er að ræða frumvarp að fyrstu heildarlögum um ökutækjatryggingar en annars var um þær fjallað í umferðarlögum og reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpinu fyrr í mánuðinum og er það til meðferðar hjá viðskiptanefnd Alþingis. Frestur til skila inn umsögnum er til 31. maí nk., en samkvæmt starfsáætlun þingsins lýkur nefndarfundum 26. maí nk.

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, gerir síður ráð fyrir að málið verði klárað fyrir sumarfrí þingsins. „Það er þess virði að reyna að klára málið, en ég get ekki lofað því,“ segir hún og býst frekar við því að það verði tekið upp á haustþingi, sem stendur í tvær vikur í september.

Umferðarstofa tekur við

Ein helsta nýbreytni sem fram kemur í frumvarpinu er að Umferðarstofu verður gert að kyrrsetja eða fjarlægja ökutæki, þegar vátrygging er fallin úr gildi vegna vanskila, á kostnað og ábyrgð eiganda eða umráðamanns þess.

Sambærilegt verkefni er nú á hendi lögreglu, þ.e. að fjarlægja skráningarnúmer óvátryggðra ökutækja. Við stutta umræðu um frumvarpið spurði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Árna Pál út í þessa nýbreytni. Árni Páll svaraði því til að sjálfsagt væri að fara yfir málið í nefndarstarfinu en hins vegar hefði lögregla ekki ráðið við verkefnið, þ.e. ekki getað sinnt því vegna skorts á mannskap. Því lægi beinast við að Umferðarstofa sinnti því, s.s þar sem stofnunin færi með „utanumhaldið“.

Dagný Jónsdóttir, forstjóri Umferðarstofu, segir stofnunina um þessar mundir vinna að umsögn um frumvarpið. Hún segir verkefnið hljóma stórt og mikið auk þess sem deila megi um hvort það falli vel að starfsemi Umferðarstofu, sem ekki sé löggæsluaðili. Hins vegar liggi ekki skýrt fyrir hvernig fyrirkomulagi verður háttað, verði frumvarpið að lögum, og betra að segja minna þar til umsögnin hafi verið send Alþingi.

Lendir á þeim sem greiða

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í upphafi árs hafi yfir fimm þúsund óvátryggð ökutæki verið í umferð. „Ásamt því að vera óvátryggð er stór hluti þessara ökutækja jafnframt óskoðaður, enda gild vátrygging forsenda skoðunar.“

Að mati Árna Páls er óverjandi að sá meirihluti ökutækjaeigenda sem hafa sín ökutæki vátryggð skuli þurfa að greiða hærri iðgjöld sem leiðir af kostnaði vátryggingafélaga við að standa undir greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum óvátryggðra ökutækja.

Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, er sammála ráðherra. Hann segir frumvarpið mjög jákvætt og til mikilla bóta frá því sem er í dag. Hann bendir á að enn eigi eftir að skerpa á nokkrum skilgreiningum, t.d. svo ljóst sé að rafmagnshjólastóll falli ekki undir vélknúið ökutæki, en vonast til að frumvarpið verði að lögum sem fyrst.

Ökutækjatryggingar
» Fyrstu lagareglur um bætur fyrir tjón af notkun bifreiða voru lög nr. 21/1914, um notkun bifreiða.
» Lögfest var víðtæk bótaregla, sem tók til tjóns á hagsmunum utan bifreiðar og einnig tjóns á fólki eða varningi, er bifreið flutti, ef bifreið var til afnota fyrir almenning gegn borgun.
» Þrátt fyrir breytingar á bifreiðalögum héldust bótareglur laga nr. 21/1914 að stofni til óbreyttar allt til 1958.
» Ábyrgðartrygging ökutækja var fyrst lögleidd árið 1926.
» 1. júlí 2008 skipaði viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar.
» Nefndin lauk störfum og skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra í frumvarpsformi 9. júlí 2009.
» Nokkrar breytingar hafa veirð gerðar frá drögunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert