Þeim, sem staddir voru við Sundahöfnina á Ísafirði í morgun þegar fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins lagðist að bryggju, leist ekkert á blikuna þegar sterk vindhviða skall á skipinu.
Keyra þurfti stefni skipsins upp að bryggjunni til að stoppa rek þess og við það slitnaði landfesti og gúmmídekk á bryggjukantinum rifnuðu.
Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri, segir enga hættu hafa verið á ferðum. „Það var svolítill vindur og þetta er gamalt skip og ekki eins gott í snúningum eins og nýrri skip en þetta gekk allt samkvæmt áætlun. Þetta lítur allt öðruvísi út en þegar það er logn og blíða en þetta gekk allt vel.“
Skipið, Aþena, er fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til landsins á þessu sumri.