Nærri tvö þúsund bíða

Ásta S. Helgadóttir í nýjum húsakynnum embættis umboðsmanns skuldara.
Ásta S. Helgadóttir í nýjum húsakynnum embættis umboðsmanns skuldara.

Hátt í tvö þúsund umsóknir eru óafgreiddar hjá umboðsmanni skuldara. Fleiri umsóknir hafa borist en hægt hefur verið að afgreiða fram undir þetta en samkvæmt upplýsingum embættisins hefur nokkurt jafnvægi verið á umsóknum og afgreiðslum síðustu vikur.

Frá því að nýjar reglur um heimild til greiðsluaðlögunar tóku gildi 1. ágúst á síðasta ári hefur embætti umboðsmanns skuldara afgreitt um 700 umsóknir. Þar af voru samtals á annað hundrað afturkallaðar eða synjað. Enn fleiri umsóknir eru óafgreiddar, því hinn 1. maí biðu 1963 umsóknir afgreiðslu, samkvæmt upplýsingum Svanborgar Sigmarsdóttur, sviðsstjóra kynningarsviðs.

Fyrstu þrjá mánuði ársins bárust tæplega 300 umsóknir á mánuði en færri í apríl, eða rúmlega 200, og gætu frídagar um páskana skýrt það að hluta.

Á annað hundrað umsóknir hafa hlotið afgreiðslu á mánuði á þessu ári nema hvað betur gekk í mars þegar 227 umsækjendur fengu heimild eða synjun til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Afgreiðslum fækkaði aftur í apríl og segir Svanborg að þá hafi hægt á vegna þess að starfsfólkið hafi þá verið að athuga hvort umsóknir hentuðu frekar í úrræði fjármálastofnana um niðurfærslu veðskulda í 110% af verðmæti eignar.

Staðan er núna sú að verið er að vinna úr umsóknum sem bárust embættinu í nóvember. Þá sóttu 372 einstaklingar um greiðsluaðlögun, fleiri en aðra mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert