Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fundið konu á sjötugsaldri seka um líkamsárás á nágrannakonu sína en sýknaði hana hins vegar af ákæru fyrir að hóta að drepa sex hænur nágrannakonunnar.
Dómarinn ákvað að fresta refsingu konunnar en hún var þó dæmd til að greiða hinni konunni 114.810 krónur í bætur.
Fram kemur í dómnum, að húsagarðar kvennanna liggja saman. Önnur konan hafði haldið hænur í eitt ár sem gæludýr. Hin konan lét sér þetta vel líka lengi vel en síðan fór hún að kvarta yfir ágangi hænsnanna. Upp úr sauð í maílok 2010.
Dómurinn sakfelldi aðra konuna fyrir að hafa rifið í hár og föt hinnar og síðan slegið hana í andlitið vinstra megin. Dómurinn segir þó ljóst, að konan hafi framið brotið í uppnámi vegna þess að henni mislíkaði að hænurnar gerðu sig heimakomnar í garði hennar.
Þá segir dómurinn að konan kannist við að hafa viðhaft orð og látbragð í viðurvist nágranna sinna sem ekki verði túlkað öðruvísi en hótun um að drepa hænurnar. Ekki verði þó ályktað að hún hafi ætlað sér að framkvæma þessa hótun.
Vísar dómurinn í 233. gr. almennra hegningarlaga þar sem m.a. er sett það skilyrði, að hótun sé til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra. „Hótun um að drepa sex hænur, sem ekki þykja geta skipt neinu máli um velferð brotaþolans, getur ekki verið til þessa fallin. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna ákærðu af því að hafa brotið gegn þessu ákvæði," segir í dómnum.