Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag mótmæla því að allt í nýjum frumvörpum um stjórn fiskveiða sé neikvætt nema menn hefðu þá sýn, að allt nema óbreytt kvótakerfi sé ógnun við sjávarútveginn.
„Þá komast menn nú ekki langt í viðleitni sinni til að ná frekari sátt um þessi mál. Það er í vinnslu hagfræðileg greining á því hvaða áhrif þessar breytingar hafa á starfsumhverfi og rekstrarskilyrði í greininni. Það er von á henni í byrjun júní og því hefur þegar verið lýst yfir að þegar hún liggur fyrir verður sest yfir niðurstöðurnar sameiginlega með hagsmunaaðilum," sagði Steingrímur. Sagði hann reynt í frumvörpunum að tryggja sjávarútveginum stöðugleika og viðunandi rekstrarumhverfi.
Hann var að svara fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði að allar þær breytingar, sem mælt væri fyrir um í frumvarpinu, leiddu til meira óhagræðis fyrir sjávarútveginn.
Bjarni vildi vita hvort í vinnslu málsins hefði verið farið ofan í saumana á því hversu mikil neikvæðu áhrifin yrðu á atvinnugreinina og sagði hann svar Steingríms þýða, að kanna ætti áhrifin af breytingunum á sjávarútvegskerfinu síðar.
„Við ætlum að kollvarpa sjávarútveginum og leggja fram frumvarp um það á Alþingi. Svo ætlum við að sjá til síðar hvort eitthvað vit er í því, efnahagslega, fyrir þjóðina. Þetta er efnislega það sem ráðherrann var hér að segja," sagði Bjarni.