Fullyrt er á vefnum shipfax.blogspot.com að Reykjafoss, leiguskip Eimskips, hafi strandað þegar það var á siglingu við Nýfundnaland þann 29. apríl sl. Þýsk útgerð, sem gerir skipið út, hafði áður fullyrt að dynkur hefði komið á skipið.
Í fréttinni segir að skipið hafi misst afl, strandað og við það hafi skrúfa skipsins skemmst. Skipið var dregið að bryggju í Argentia á Nýfundnalandi.
Þýskt útgerðarfélag Reykjafoss, sem Eimskip leigði til Ameríkusiglinga, hefur lýst yfir sameiginlegu sjótjóni vegna óhappsins.
Sameiginlegt sjótjón þýðir að eigendur farms í skipinu þurfa að taka þátt í kostnaði sem hlýst af óhappinu. Draga þurfti skipið að bryggju og afferma áður en það var dregið í slipp til viðgerðar. Þeir sem höfðu tryggt farminn þurfa ekkert að borga því farmtryggingin tekur til sameiginlega sjótjónsins.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði að félagið hefði ekki átt neinn þátt í lýsingu sameiginlegs sjótjóns. Það hafi alfarið verið ákvörðun hinnar þýsku útgerðar skipsins.
Hann
sagði að Eimskip hafi hreyft mótmælum við yfirlýsingu um sameiginlegt
sjótjón og muni skoða réttarstöðu sína og viðskiptavina sinna varðandi
þá ákvörðun.