Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar.
„Við yfirferð gagna hjá embætti ríkislögrelgustjóra hafa ekki komið fram upplýsingar sem gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005," segir í skýrslu, sem ríkislögreglustjóri hefur sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra.
Ögmundur segir í yfirlýsingu vegna málsins, að fram hafi komið í fréttum alvarlegar ásakanir um vinnubrögð evrópskra lögregluyfirvalda sem séu forkastanlegar, ef sannar séu, nefnilega að kallaðir séu til flugumenn sem láti ekki sitja við það eitt að njósna um fólk heldur æsi til uppþota og jafnvel ofbeldis til að sverta góðan málstað.
Þá hafi komið fram í fjölmiðlum að breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy hafi stofnað til kynferðislegs sambands við konur úr röðum mótmælenda, en slíkt sé skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum alls staðar í siðuðum þjóðfélögum.
„Upplýst hefur verið að konur sem orðið hafa fyrir barðinu á Mark Kernnedy, í Þýskalandi og hugsanlega annars staðar, hyggist leggja fram kæru á hendur honum. Fari svo þykir mér sýnt að öllum þeim upplýsingum, sem fram kunna að koma um óeðlileg afskipti þessa einstaklings af mótmælendum hér á landi, verði komið á framfæri við hlutaðeigandi yfirvöld.
Við hljótum að gera þá afdráttarlausu kröfu til lögreglu sem við eigum í samstarfi við að hún hafi að leiðarljósi siðferðisgildi sem leyfa ekki svona framferði, auk þess sem mér finnst íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið," segir í yfirlýsingu Ögmundar.