Atlantsolía hefur lækkað verð á eldsneyti um tvær krónur og kostar lítri af bensíni nú 237,20 krónur. Svigrúm mun hafa skapast til lækkana vegna lægra innkaupsverðs. Lítri af díselolíu kostar 233,4 krónur
Að sögn Huga Hreiðarssonar, markaðsstjóra Atlantsolíu, er ekki hægt að segja til um hversu lengi þessi lækkun muni vara. „En við vonum auðvitað að það verði sem lengst.“
„Við gerum upp farmana á því meðalverði sem er í gangi á þeim tíma sem þeir klárast,“ segir Hugi.
Hann segir að margir hafi beint þeim tilmælum til ríkisins að lækka álögur á eldsneyti, að minnsta kosti yfir sumarmánuðina þegar landsmenn eru á faraldsfæti. Lítil viðbrögð hafi borist við því, en hlutur ríkisins er nú 115 krónur á hvern lítra.