Þorskaflinn í svonefndu netaralli Hafrannsóknastofnunar í apríl var tæp 800 tonn sem er besti afli í netaralli frá upphafi. Þorskaflinn var tæp 500 tonn í fyrra og tæp 600 tonn árið 2009 en afli í netaralli hefur farið vaxandi frá árinu 2007 og segir Hafrannsóknastofnun, að það í samræmi við hækkun á stofnvísitölu þorsks í togararalli.
Hafi stofnvísitala þorsks í togararalli farið hækkandi síðastliðin ár og megi það einkum rekja til aukningar á stærri þorski.
Eina svæðið sem skar sig úr hvað varðar þorskafla var kanturinn austur af Eyjum, en þetta er þriðja árið í röð þar sem afli hefur verið lélegur þar.
Netarallinu lauk 20. apríl og tóku sex bátar þátt; Saxhamar SH í Breiðafirði, Magnús SH í Faxaflóa, Friðrik Sigurðsson ÁR á svæðinu frá Reykjanesi að Þrídröngum, Glófaxi VE frá Þrídröngum að Skeiðarárdjúpi og Hvanney SF frá Meðallandsbugt að Hvítingum, Þorleifur EA fyrir norðurlandi.