Fjögurra daga aðalmeðferð

Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, í skattahluta Baugsmálsins.
Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, í skattahluta Baugsmálsins. Morgunblaðið/Sigurgeir

Aðalmeðferð í skattahluta svonefnds Baugsmáls fer fram 17.-20. október nk. Þetta var ákveðið við fyrirtökumálsins í gærdag. Vitnalistar verða lagðir fram í byrjun október en búast má við að þau verði um þrjátíu talsins.

Málið var sem kunnugt er höfðað á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans, Tryggva Jónssyni, Baugi Group og fjölskyldu- og fjárfestingafélaginu Gaumi. Eftir gjaldþrot Baugs var fallið frá ákæru á hendur félaginu. Sakarefnið er meiriháttar brot gegn skattalögum á árunum 1998 til 2002.

Rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs hófst í nóvember 2003 og fékk Baugur afhenta endurálagningu frá ríkisskattstjóra fyrir árin 1998 til 2002 hinn 31. desember 2004. Baugur greiddi 142 milljónir króna í janúar 2005 vegna þessa.

Málið var þingfest í febrúar árið 2009 en þrívegis hafa verjendur sakborninga lagt fram kröfu um frávísun málsins. Þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði og er ljóst að málið verður flutt.

Þó svo fjögurra daga aðalmeðferð hljómi eflaust ríflegt er skemmst að minnast þess að aðalmeðferð í aðalhluta Baugsmálsins stóð í um einn mánuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert