Gagnrýnir skort á samráði

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður segir að þegar samkomulag tókst um að koma á Vatnajökulsþjóðgarði hafi það byggst á því að gott samráð yrði haft við alla hagsmunaaðila, en við það hafi ekki verið staðið.

Guðlaugur Þór ræddi um Vatnajökulsþjóðgarð utan dagskrár á Alþingi í dag. Þjóðgarðurinn nær yfir um 13% landsins og er stærsti þjóðgarður í Evrópu. Guðlaugur sagði að margir hefðu í gegnum árin notið þessa landsvæðis og það hefði verið mikið nýtt sem útivistarsvæði. Hann sagðist ekki vita annað en að svæðinu hefði verið fullur sómi sýndur.

Guðlaugur Þór gagnrýndi skort á samráði við hagsmunaðila og ekki hefði verið staðið við þau fyrirheit sem gefin voru við undirbúning málsins. Hann sagði ekki enn of seint að ná betri sátt um málið. Hann benti á gagnrýni um takmarkanir á umferð um garðinn, takmörkun á umferð hestamanna og lokun veiðisvæða.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði að fyrirspurnir þingmannsins bæru þess nokkuð merki að hann gerði sér ekki grein fyrir hvernig stjórnkerfi þjóðgarðsins er uppbyggt. Ráðherra væri ekki með puttana í daglegri stjórn garðsins. Verndaráætlun þjóðgarðsins hefði verið unnin af stjórn garðsins. Að stjórn hans kæmu einnig fjögur svæðisráð sem hefðu verið sett upp til að tryggja betur aðkomu heimamanna. Svandís sagðist hafa staðfest verndaráætlunina óbreytta eftir að hafa kynnt sér hana vel.

Svandís sagði að margar athugasemdir snertu samgöngur innan garðsins og hún hefði því beitt sér fyrir því að haldnir væru samráðsfundir um þau mál. Varðandi skotveiðarnar benti hún á að svæðisráð hefði gert tillögur um takmörkun á skotveiðum. Tillagan kæmi því frá heimamönnum. Rökin fyrir henni væri að menn vildu leggja meiri áherslu á gönguferðir á þessu svæði og skotveiði og gönguferðir færu illa saman.

Svandís benti á að opinbert vegakerfi væri um 13 þúsund kílómetrar. Því til viðbótar væru um 13 þúsund slóðar víðar um landið. Það væri ástæða til að reyna að ná stjórn á umferð um þessa slóða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert