Meginniðurstaða ársreikninga Hafnarfjarðarbæjar er að afkoma bæjarsjóðs, A hluta og samstæðureiknings A og B hluta, er jákvæð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum en fyrri umræða um málið fór fram á fundi bæjarstjórnar í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá bænum er rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um tæpar 215 milljónir króna og A og B hluta jákvæð um 466 milljónir króna. Framlegð í A hluta eða EBITDA er 685 milljónir króna eða 5,5% og framlegð í A og B hluta er 1.488 milljónir króna eða 10,9%.
Þá kemur fram að rekstrargjöld lækka um 193 milljónir króna á milli ára í A hluta og um 175 milljónir króna í A og B. Það er, að sögn bæjarins, merki um að þær hagræðingaraðgerðir, sem farið var í, skiluðu árangri en á sama tíma hafi störf verið varin. Launakostnaður á milli ára hækkar um 46 milljónir króna, og það þrátt fyrir hækkun lífeyrisskuldbindinga um 417 milljónir króna á árinu 2010 og hækkunar launatengdra gjalda.
Í tilkynningu frá bænum segir að enn gæti áhrifa efnahagshrunsins í rekstri sveitarfélagsins, tekjur hafi lækkað, útgjöld til félagsmála hækkað og skuldir stökkbreyst vegna verðlags- og gengisbreytinga.
Þau verkefni sem séu framundan felist í að ljúka við endurfjármögnun sveitarfélagsins og styrkja lausafjárstöðu þess. Þá á sveitarfélagið um 10 milljarða króna eign í tilbúnum lóðum, sem munu þegar fram í sækir skapa aukið svigrúm til að greiða niður skuldir. „Áframhaldandi aðhald í rekstri og sókn á atvinnusvæðum sem tilbúin eru til framkvæmda og frekari uppbyggingar er hins vegar nauðsynlegar aðgerðir til að styrkja fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar.“