Össur Skarphéðinsson átti í dag fund með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington. Össur sagði við blaðamenn að fundi loknum að hann hefði verið langur og mjög árangursríkur, mun lengri en áætlað hefði verið. Össur sagði þau hafa rætt aukið samstarf Íslands og Bandaríkjanna á ýmsum sviðum.
Hillary Clinton gaf stutta yfirlýsingu, er fjölmiðlum gafst færi á að myndatöku í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Fagnaði hún sérstaklega fyrsta flugi Icelandair til Washington og sú áætlunarleið ætti eftir að nýtast þeim sem áhuga hefðu á ferðum til Íslands.
Minntist ánægjulegra funda á Grænlandi
Clinton sagði Ísland og Bandaríkin hafa mörg mál til að ræða um, og þau Össur hefðu einnig átt fund í Nuuk á Grænlandi í síðustu viku. Þakkaði Össur fyrir hlýjar móttökur í ráðuneytinu og minntist ánægjulegra funda þeirra á Grænlandi.
„Við ræddum mjög lengi málefni er varðar samskipti norðurslóðarmála. Ég óskaði eftir því að Bandaríkin myndu styðja viðleitni Íslendinga til að koma sem fyrst í gegn lagalega bindandi samningum um varnir gegn olíumengun. Hún lýsti fullum stuðningi við það. Einnig nefndi ég að það væri eindregin stefna og viðleitni íslenskra stjórnvalda að efna til alþjóðlegrar miðstöðvar á sviði leitar og björgunar á Íslandi. Hún tók ákaflega vel í þá hugmynd og ég lít svo á að þetta sé upphafið að viðræðum millum okkar og Bandaríkjanna um hvernig hægt sé að ná því fram, auðvitað í samvinnu aðrar þjóðir," sagði Össur.
Samstarf um rannsóknir á norðurslóðum
Hann upplýsti einnig að Clinton hefði tekið vel í þá tillögu að á þessu ári myndu embættismenn Íslands og Bandaríkjanna hefja vinnu við að leggja drög að formlegu samkomulagi um samstarf þjóðanna í framtíðinni á sviði rannsókna er tengjast norðurslóðum.
Þá voru samskipti þjóðanna rædd á sviði varnar- og öryggismála, og þær skuldbindingar sem Bandaríkin hefðu gagnvart Íslandi á því sviði. Með samningnum árið 2006, þegar bandaríski herinn fór, var efnt til ákveðins ráðslags á milli ríkjanna. „Það var sammæli okkar að ýta undir það, málin hafa ekki verið síðustu árin í takt við það sem til var efnt. Þar þarf að skoða ákveðna þætti betur," sagði Össur.
Ræddu stöðuna í Miðausturlöndum
Fjölmörg önnur mál voru rædd á fundi utanríkisráðherra, m.a. málefni Líbíu og Sýrlands, staðan í Palestínu, samstarf Íslands og Bandaríkjanna í orkumálum og þá spurði Clinton út í stöðu efnahagsmála á Íslandi og hvernig samstarfið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn gengi.
Að sögn Össurar ræddu þau einnig um áætlunarflug Icelandair til Washington. Af því tilefni hefði Clinton rifjað upp Íslandsferð þeirra Bills Clinton á fyrstu árum sambands þeirra. Þrjátíu og fimm árum síðar hefði Bill enn munað eftir slagorði Icelandair á þeim tíma: ,,We are the slowest but the lowest".
Kveðja til Húsavíkur
Þá sagðist Össur hafa greint Clinton frá opnun ljósmyndasýningar á Húsavík í lok vikunnar, til minningar um það þegar Neil Armstrong geimfari kom þangað að æfa sig fyrir tungferð ásamt fleiri bandarískum geimförum. Bað Clinton fyrir kveðju til þeirra sem standa að sýningunni, sem eru Örlygur Hnefill Örlygsson, sem átti frumkvæðið að sýningunni, og Örlygur Hnefill Jónsson, faðir hans, yngri bróðir Gunnar Hnefill.