Segja að lögregla hafi handtekið Kennedy

Ágreiningur er milli lögreglu og Saving Iceland um hvort þessi …
Ágreiningur er milli lögreglu og Saving Iceland um hvort þessi maður sé Mark Kennedy.

Samtökin Saving Iceland segjast standa við fyrri fullyrðingar um að lögreglan hafi haft afskipti af Mark Kennedy þegar hann tók þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun.

Mark Kennedy vann sem njósnari fyrir bresku lögregluna með því að taka þátt í mótmælum og afla upplýsinga um starfsemi mótmælenda. Hann kom hingað til lands og tók þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri á Austurlandi. Meðan hann dvaldi hér á landi gekk hann undir nafninu Mark Stone.

Saving Iceland birti mynd af manni sem lögregla handtók 26. júlí 2005 og fullyrti að þar væri um Mark Kennedy að ræða. Fjallað var um þetta á vefritinu Smugunni og fleiri miðlum. Lögreglan sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem segir: „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka.“

Saving Iceland sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem samtökin segjast standa við fyrri yfirlýsingar um að umrædd ljósmynd sýndi tvo íslenska lögreglumenn kljást við Kennedy á Kárahnjúkum þann 26. júlí 2005.

„Ekki þarf annað en að bera myndina saman við aðrar myndir sem teknar voru af Kennedy við Kárahnjúka til að sjá að um sama manninn er að ræða. Ein þeirra var meðal annars birt í breska dagblaðinu The Daily Mail og sýnir hún Kennedy, klæddan í sömu föt og á umræddri mynd Saving Iceland, þar sem hann stendur á vinnuvél sem hann hafði stöðvað ásamt fleiri aktívistum við Kárahnjúka.“

Í yfirlýsingunni segir að Kennedy hafi einnig verið í hópi aktívista sem lögreglan hafði í haldi við Kárahnjúka á meðan farið var yfir vegabréf þeirra í júlí 2005. „Því er ljóst að íslenska lögreglan hafði í það minnsta tvisvar sinnum afskipti af Mark Kennedy, sem á þessum tíma gekk undir dulnefninu Mark Stone og var það nafn á vegabréfinu sem íslenska lögreglan skoðaði. Eins og fram kom í skýrslu Ríkislögreglustjóra sem birt var í gær óskaði íslenska lögreglan alltaf eftir upplýsingum frá bresku lögreglunni um þá bresku einstaklinga sem handteknir voru á Kárahnjúkum. Því er líklegt að hafi íslensku lögreglunni ekki verið kunnugt um veru Kennedy hér á landi hefur umrædd skoðun á vegabréfi hans leitt sannleikann í ljós.

Í ljósi ítrekaðar neitunar lögreglunnar á Seyðisfirði á því að hafa haft afskipti af Kennedy, og vegna yfirlýsingar embættisins um að ljósmynd Saving Iceland sýni annan mann sem lögreglan viti hver er, er ekki hægt að draga aðra ályktun en að lögreglan sé einmitt að tala um  huldumanninn Mark Stone,“ segir í yfirlýsingunni.

Saving Iceland segja þessa mynd, sem sé af Mark Kennedy, …
Saving Iceland segja þessa mynd, sem sé af Mark Kennedy, sanni að hann sé maðurinn á hinni myndinni sem lögregla er að handtaka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert