Hagsmunasamtök heimilanna fagna birtingu skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við útgáfu hennar. Fram kemur í tilkynningu að það sé sérstakt fagnaðarefni að kröfur samtakanna hafi nú náð á blað í skýrslu þingnefndar og fá vonandi umræðu á Alþingi í framhaldinu.
Skýrslan gefi til kynna mikinn vilja nefndarinnar til afnáms verðtryggingar.
Skora samtökin á stjórnvöld að taka til greina tillögur nefndarinnar um róttækar breytingar í húsnæðislánakerfinu.
Samtökin telji þó ástæðu til að ganga enn lengra en gert sé í þessari skýrslu í að rannsaka lagalegan grundvöll og reiknireglur verðtryggðra lána sem samtökin telji ákaflega vafasamar, bæði með tilliti til íslenskra laga og evrópsks neytendaréttar.