Hann stakk í stúf við snjóhvíta ferðafélaga sína, svarti svanurinn sem spókaði sig á túni í Kjósinni í gær.
Svartsvanir eru þó ekki eins sjaldséðir hérlendis og margir halda, segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur. Þeir flækist hingað árlega frá Bretlandseyjum í slagtogi með íslensku álftinni, ýmist einir eða í pörum.
Tegundina segir Jóhann upprunna í Ástralíu en hún hafi borist til Evrópu þegar breskir og hollenskir nýlenduherrar kepptust við að safna skrautlegum og framandi fuglum til að skreyta tjarnir sínar og garða.