Tekjur ríkissjóðs lækka um 5 milljarða

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í …
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustól. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en í því eru gerðar breytingar í skattamálum vegna nýgerðra kjarasamninga. Samkvæmt frumvarpinu lækka tekjur ríkissjóðs um fimm milljarða.

Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á nokkrum lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 5. maí sl.

Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur taki breytingum árlega til samræmis við verðbólgu, í fyrsta sinn 1. janúar 2012, og breytist fjárhæð hans þá í samræmi við breytingar á gildandi vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði. Gert er ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga lækki um 1 milljarð fyrir hvert prósentustig sem afslátturinn hækkar. Miðað við spá um að vísitala neysluverðs hækki um 3% á tímabilinu má því áætla að tekjur ríkissjóðs lækki um 3 milljarða króna á næsta ári vegna hærri persónuafsláttar í kjölfar lögfestingar á þessu ákvæði.


Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Lagt er til að tekjuskattur leggist ekki á vaxtagreiðslur vegna lánasamninga sem þeir aðilar sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu gera við ótengda aðila sem ella mundu bera hér takmarkaða skattskyldu. Þá er lögð til breyting á skattlagningu einstaklinga starfandi í eigin félögum. Annars vegar er um að ræða nánari skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu ráðandi aðili í tengslum við skattlagningu launa- og arðgreiðslna við eigin atvinnurekstur og hins vegar að sá hluti úthlutaðs arðs sem er umfram 20% af bókfærðu eigin fé og telst vera laun samkvæmt gildandi lögum, eða helmingurinn, verði skattlagður í 24,1% tekjuskatti að frátöldu útsvari en ekki í þremur þrepum eins og nú er. Því til viðbótar er lagt til að skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar milli fyrirtækja verði takmörkuð við 5% eignarhald í stað 10%. Loks er í þessu sambandi lagt til að við mat hlutabréfa við skilgreiningu á gjaldstofni auðlegðarskatts verði tekið mið af stofnverði í stað mats á hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé eins og nú er, nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að erfitt sé að meta hvaða áhrif þessar breytingar á skattalögum hafa á tekjur ríkissjóðs. Afnám afdráttarskatts á vaxtagreiðslur af erlendum lánasamningum mun hafa umtalsverð bein áhrif til lækkunar en aðrir liðir minna og er heildarlækkunin á tekjum ríkissjóðs metin á um 2 milljarða á ári.


Í þriðja lagi eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Annars vegar er lagt til að lögfest verði skylda launagreiðenda frá og með 1. júlí nk. til greiðslu á 0,13% iðgjaldi til Starfsendurhæfingarsjóðs. Hins vegar er lagt til að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er nemi 0,13% af iðgjaldsstofni frá og með 1. janúar 2012. Verði þetta ákvæði lögfest munu iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða því rýrna um 0,13% af iðgjaldsstofni. Sú rýrnun kynni að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma litið en á móti ætti að vega minni örorkubyrði vegna aukinnar starfsendurhæfingar. Hjá lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga þar sem réttindi eru tryggð samkvæmt sérlögum þyrfti að breyta lögum til að draga úr þeim, ella kann þessi skerðing á tekjum þeirra að leiða til aukinnar skuldbindinga fyrir hið opinbera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert