Skilar 700 milljónum í auknum tekjum

Reuters

Ætla má að hækkun á veiðigjaldi á næsta fiskveiðiári, sem nýtt frumvarp um sjórn fiskveiða gerir ráð fyrir, skili ríkissjóði 2 milljörðum króna meira í ríkissjóð, en útgjöld munu hins vegar aukast á móti um 1150 milljónir. Tekjur ríkissjóðs munu því aukast í heild um 700 milljónir.

Áætlað er að veiðigjald skili ríkissjóði 2,8 milljörðum á þessu ári. Frumvarpið gerir ráð fyrir að á næsta fiskveiðiári hækki gjaldið úr 9,5% af reiknaðri EBITDU útgerðarfélaga  í 16,2%. Áætlað er að við þetta skili gjaldið 4,8 milljörðum í ríkissjóð.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu kemur fram að þar sem tekjuskattur útgerðarfyrirtækja sé frádráttarbær frá rekstrarkostnaði kunni tekjuskattur að skila minna í ríkissjóð, en áætlað er að þetta gæti orðið um 400 milljónir í lægri tekjum.

Jafnframt kemur fram að hluti tekna ríkissjóðs af sjávarútvegi sé markaður í tilfærsluframlög og því sé áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 1150 milljónir við þessar breytingar. Eftir standi því um 700 milljónir í auknum tekjum fyrir ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert