Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í þremur lágvöruverðverslunum og fjórum þjónustuverslunum á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 16. maí.
Hæsta verðið var oftast að finna í Nóatúni og Fjarðarkaupum eða í um þriðjungi tilvika. Í þeim tilvikum sem umbeðin vara var til í verslununum Bónus, Krónunnar og Nettó var um eða undir 3 kr. verðmunur í 21 tilviki.
„Af þeim 107 vörutegundum sem skoðaðar voru, voru Nóatún og Fjarðarkaup með hæsta verðið í 36 tilvikum og Hagkaup í 26 tilvikum. Bónus var með lægsta verðið á 77 vörutegundum af þeim 107 sem skoðaðar voru. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til í Fjarðarkaupum eða 105 af 107 og næstflestar í Hagkaupum 102 af 107.
Áberandi mestur verðmunur í könnuninni var á ávöxtum og grænmeti en í aðeins 3 tilvikum af 19 var munur á hæsta og lægsta verði minni en 25%. Sem dæmi má nefna að mestur verðmunur var á rauðum chillí en hann kostaði 1.290 kr./kg. í Bónus en var dýrastur á 3.975 kr./kg. í Fjarðarkaupum. Verðmunurinn var 2.685 kr./kg. eða 208%. Minnstur verðmunur var á avocadó sem var ódýrast á 519 kr./kg. í Bónus en dýrast á 598 kr./kg. í Fjarðarkaupum eða 15% verðmunur,“ segir ASÍ í tilkynningu.
Kostur Dalvegi neitaði að taka þátt í könnuninni segir ASÍ.