Ekki á að nota börn í kjarabaráttu

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er orðinn þreyttur á því þegar verið er að nota börn til að berjast endalaust fyrir hagsmunum og kjarabaráttu einstakra starfsstétta,“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur alþingismanns um tannheilsu barna.

Þorgerður Katrín gagnrýndi að samið hefði verið verið tannlæknadeild Háskóla Íslands um tannviðgerðir barna sem eiga efnalitla foreldra. Hún sagði að þetta væri ekki rétta leiðin. Verið væri að ríkisvæða tannlæknakerfið vegna þess að ráðherranum hefði ekki tekist að semja við tannlækna um þjónustuna. Hún benti á að það væri dýrt að senda börn frá Ísafirði eða Húsavík til að fá tannlæknaþjónustu í Reykjavík. Þetta biði líka upp á einelti þegar verið væri að taka börn úr skóla til að senda suður í tannlækninga og stimpla þau þannig sem fátæk.

Guðbjartur brást illa við þessum athugasemdum og barði í ræðupúltið. Hann vísað því á bug að þetta fyrirkomulag ýtti undir einelti. Hann viðurkenndi hins vegar að óæskilegt væri að vera með það fyrirkomulag að senda börn til Reykjavíkur til tannlækninga. Hann sagði að menn hefðu í 10 ár reynt að semja við tannlækna og spurði Þorgerði hvers vegna ekki hefði verið samið við tannlækna meðan hér hefði ríkt góðæri. Hann sagðist ekki vera talsmaður þess að ríkisvæði tannlæknaþjónustuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert