„Ég held að það sjáist best á því að þessi hækkun á gengi er að nokkru leyti gengin til baka á fyrstu mánuðum ársins. Peningar hvorki koma inn við það að færa gengishagnað inn í bækur né fara út við það að færa gengistap til bókar,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, spurður um rökin gegn því að nýta tækifærið og lækka álögur í borginni vegna rekstrarafgangs, sem er meðal annars til kominn vegna hagstæðrar gengisþróunar.
„Það er jafnóskynsamlegt að hlaupa til og halda að maður eigi einhverja peninga þegar maður reiknar sér svona hagnað, og það væri óskynsamlegt að hlaupa til og skera kröftuglega niður þegar gengið sveiflast niður, nema þá yfir lengri tíma í báðum tilvikum. Þetta endurspeglar hvað það er áhættusamt fyrir Reykjavíkurborg og fyrirtæki borgarinnar að vera jafnskuldsett og Orkuveitan er.“
Spurður hvort ágreiningur sé innan meirihlutans í málinu segir Dagur svo ekki vera. Rétt sé hjá borgarstjóra að þetta hafi ekki verið rætt innan meirihlutans, enda beri að fara varlega í að fagna gengishagnaði. Ljóst sé að borgin verði aðþrengd í fjármálum næstu árin.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, fagnaði ummælum borgarstjóra í samtali við mbl.is og sagði Sjálfstæðisflokkinn tilbúinn að vinna með meirihlutanum að slíkri skoðun.