Ólafur H. Sigurðsson bæjarstjóri á Seyðisfirði hefur sagt af sér sem bæjarstjóri. Hann sagði að ein ástæðan fyrir þessari ákvörðun sé ársreikningur bæjarsjóðs sem sýni verri stöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Ég er ekki ánægður með ársreikning síðasta árs. Hann var verri en ég átti von á og mér finnst mjög erfitt að sitja undir því. Ég ber auðvitað ekki einn ábyrgð á því en ég ætla að axla ábyrgð á því. Þetta snýst líka um ákveðinn trúnaðarbrest milli mín og hluta af meirihlutanum sem réði mig í vinnu,“ sagði Ólafur.
Samkvæmt ársreikningnum skilaði bærinn um 70 milljón króna tapi. Rekstrarniðurstöðu fyrir fjármagnsliði og afskriftir er jákvæð um 30 milljónir sem er svipað og árið 2009. Ólafur sagði að reiknað hefði verið með betri afkomu, en þó hefði verið ljóst þegar leið á árið að áætlun myndi ekki standast.
Ólafur sagði að reiknað hefði verið með að gengið yrði frá samningum um kapalverksmiðju, en það hefði dregist. Menn hefðu vegna þessa frestað því að fara í aðgerðir til að spara í rekstri. Menn hefðu talið að atvinnulífið myndi ekki þola það. Íbúum á Seyðisfirði fækkaði um 37 á síðasta ári.
Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar myndaði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta í bæjarstjórn Seyðisfjarðar. Ólafur hefur verið bæjarstjóri á Seyðisfirði í níu ár. Hann mun gegna störfum þar til nýr bæjarstjóri hefur verið ráðinn.