Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir í umsögn um ný kvótafrumvörp sjávarútvegsráðherra, að fram hafi komið ábendingar um að það kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár hvernig gert er ráð fyrir að auðlindagjaldi verði skipt milli byggðarlaga.
Ráðuneytið segir, að með frumvörpunum sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingu á meðferð tekna af veiðigjaldi frá því sem nú er. Til þessa hafi tekjur af veiðigjaldinu runnið óskiptar í sameiginlegan sjóð landsmanna en nú sé lagt til að tilteknum hluta þeirra verði ráðstafað til sveitarfélaga með aðferð sem muni leiða til þess að mikill mismunur verði á framlagi til einstakra landshluta og sveitarfélaga.
Ljóst megi vera, að mörg sveitarfélög muni ekki fá neina beina hlutdeild í veiðigjaldinu en önnur muni fá umtalsverð viðbótarframlög. Þannig megi áætla að miðað við 12,6 milljarða króna heildartekjur af veiðigjaldi og leigu aflaheimilda að 15 árum liðnum, núverandi íbúafjölda og landað aflaverðmæti undanfarinna 15 ára, að framlag á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu gæti legið nærri 1 þúsund krónur á ári en á Austurlandi og Vestfjörðum gæti það orðið nálægt 55 - 60 þúsund krónur eða um fimmtíufalt hærra.
Enn þá
meiri munur væri á framlagi á hvern íbúa í mismunandi sveitarfélögum
miðað við sömu forsendur, þar sem
ekkert framlag færi til sveitarfélaga þar sem engum afla er landað,
t.d. í Hveragerði, Mosfellsbæ eða á Egilsstöðum, en framlagið gæti
orðið í kringum 90 þúsund krónur eða jafnvel nokkru
hærra á hvern íbúa í sveitarfélögum þar sem sjávarútgerð er mjög öflug,
t.d. í Vestmannaeyjum, Grindavík eða Bolungarvík.
Segir ráðuneytið, að auðlindarentan, sem veiðigjaldi sé ætlað að ná til, myndist í sjávarútgerð fyrst og fremst vegna almennra lagareglna um fiskveiðistjórnun sem íslenska ríkið setur og framfylgir á grundvelli þess að um sameiginlega auðlind þjóðarinnar er að ræða.
„Það kann því að orka tvímælis að almenn skattlagning á sameiginlega auðlind eigi að koma sumum landsmönnum meira til góða en öðrum eftir því hvar á landinu þeir búa, þ.m.t. þeim sem starfa við annað en sjávarútveg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjávarbyggðum. Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en þó er engin umfjöllun eða rökstuðningur um það í greinargerð frumvarpsins. Þar segir einungis að ætlunin sé að stuðla að meiri sátt um ráðstöfun veiðigjaldsins og að eðlilegt sé að sjávarbyggðir njóti sanngjarns hluta af þessum ríkistekjum af auðlindinni," segir fjármálaráðuneytið.
Ráðuneytið segir einnig, að í þessu sambandi hafi verið sett fram sjónarmið um að fremur væri tilefni til þess að byggðarlög, sem ekki njóta góðs af fiskveiðiauðlindinni, t.d. vegna landfræðilegrar staðsetningar, ættu að gera það með meiri hlutdeild í veiðigjaldinu.
Á sama hátt kynnu að vakna spurningar um hvort t.d. auðlindagjöld, sem lögð væru á vatnsafls- eða jarðhitavirkjanir, ættu fremur að renna til sveitarfélaga þar sem svo vill til að orkuvinnslan er staðsett, eða hvort skattar af veltu af verslun og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu ættu að renna til þeirra sveitarfélaga en ekki annarra, eða að eldsneytisgjöld af umferð á höfuðborgarsvæðinu ætti ekki að renna til að fjármagna samgöngumannvirki sem staðsett væru í öðrum landshlutum.
Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006