Í bága við stjórnarskrá?

Fjár­laga­skrif­stofa fjár­málaráðuneyt­is­ins seg­ir í um­sögn um ný kvótafrum­vörp sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, að fram hafi komið ábend­ing­ar um að það kunni að brjóta í bága við jafn­ræðis­reglu stjórn­ar­skrár hvernig gert er ráð fyr­ir að auðlinda­gjaldi verði skipt milli byggðarlaga.

Ráðuneytið seg­ir, að með frum­vörp­un­um sé gert ráð fyr­ir grund­vall­ar­breyt­ingu á meðferð tekna af veiðigjaldi frá því sem nú er. Til þessa hafi tekj­ur af veiðigjald­inu runnið óskipt­ar í sam­eig­in­leg­an sjóð lands­manna en nú sé lagt til að til­tekn­um hluta þeirra verði ráðstafað til sveit­ar­fé­laga með aðferð sem muni leiða til þess að mik­ill mis­mun­ur verði á fram­lagi til ein­stakra lands­hluta og  sveit­ar­fé­laga.

Ljóst megi vera, að mörg sveit­ar­fé­lög muni ekki fá neina beina hlut­deild í veiðigjald­inu en önn­ur muni fá um­tals­verð viðbótar­fram­lög. Þannig megi áætla að miðað við 12,6 millj­arða króna heild­ar­tekj­ur af veiðigjaldi og leigu afla­heim­ilda að 15 árum liðnum, nú­ver­andi íbúa­fjölda og landað afla­verðmæti und­an­far­inna 15 ára, að fram­lag á hvern íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu gæti legið nærri 1 þúsund krón­ur á ári en á Aust­ur­landi og Vest­fjörðum gæti það orðið ná­lægt 55 - 60 þúsund krón­ur eða um fimm­tíufalt hærra.

Enn þá meiri mun­ur væri á fram­lagi á hvern íbúa í mis­mun­andi sveit­ar­fé­lög­um miðað við sömu for­send­ur, þar sem ekk­ert fram­lag færi til sveit­ar­fé­laga þar sem eng­um afla er landað, t.d. í Hvera­gerði, Mos­fells­bæ eða á Eg­ils­stöðum, en fram­lagið gæti orðið í kring­um 90 þúsund krón­ur eða jafn­vel nokkru hærra á hvern íbúa í sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjáv­ar­út­gerð er mjög öfl­ug, t.d. í Vest­manna­eyj­um, Grinda­vík eða Bol­ung­ar­vík. 

Seg­ir ráðuneytið, að auðlindar­ent­an, sem veiðigjaldi sé ætlað að ná til, mynd­ist í sjáv­ar­út­gerð fyrst og fremst vegna al­mennra laga­reglna um fisk­veiðistjórn­un sem ís­lenska ríkið set­ur og fram­fylg­ir á grund­velli þess að um sam­eig­in­lega auðlind þjóðar­inn­ar er að ræða.

„Það kann því að orka tví­mæl­is að al­menn skatt­lagn­ing á sam­eig­in­lega auðlind eigi að koma sum­um lands­mönn­um meira til góða en öðrum eft­ir því hvar á land­inu þeir búa, þ.m.t. þeim sem starfa við annað en sjáv­ar­út­veg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjáv­ar­byggðum. Fram hafa komið ábend­ing­ar um að slíkt fyr­ir­komu­lag kunni að brjóta í bága við jafn­ræðis­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar en þó er eng­in um­fjöll­un eða rök­stuðning­ur um það í grein­ar­gerð frum­varps­ins. Þar seg­ir ein­ung­is að ætl­un­in sé að stuðla að meiri sátt um ráðstöf­un veiðigjalds­ins og að eðli­legt sé að sjáv­ar­byggðir njóti sann­gjarns hluta af þess­um rík­is­tekj­um af auðlind­inni," seg­ir fjár­málaráðuneytið.

Ráðuneytið seg­ir einnig, að í þessu sam­bandi hafi verið sett fram sjón­ar­mið um að frem­ur væri til­efni til þess að byggðarlög, sem ekki njóta góðs af fisk­veiðiauðlind­inni, t.d. vegna land­fræðilegr­ar staðsetn­ing­ar, ættu að gera það með meiri hlut­deild í veiðigjald­inu.

Á sama hátt kynnu að vakna spurn­ing­ar um hvort t.d. auðlinda­gjöld, sem lögð væru á vatns­afls- eða jarðhita­virkj­an­ir, ættu frem­ur að renna til sveit­ar­fé­laga þar sem svo vill til að orku­vinnsl­an er staðsett, eða hvort skatt­ar af veltu af versl­un og þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu ættu að renna til þeirra sveit­ar­fé­laga en ekki annarra, eða að eldsneyt­is­gjöld af um­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu ætti ekki að renna til að fjár­magna sam­göngu­mann­virki sem staðsett væru í öðrum lands­hlut­um.

Frum­varp til laga um stjórn fisk­veiða

Frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um nr. 116/​2006
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert