Khat ekki notað hér

Khatplöntur sem lögreglan lagði hald á.
Khatplöntur sem lögreglan lagði hald á. mbl.is/Eggert

Ekki er vitað til þess, að nokkur eftirspurn sé eftir fíkniefninu khat hér á landi en fram kom í gær að lögregla lagði hald á um 60 kíló af þessu efni sem átti að senda héðan áfram til Bandaríkjanna og Kanada. 

Fíkniefnið khat er afurð plöntu frá Norðaustur-Afríku og hefur verið þekkt á Norðurlöndum síðustu áratugi. Lauf plöntunnar eru venjulega tuggin eða búið til seyði úr þeim og það drukkið eins og te. Neyslan hefur örvandi áhrif á fólk og eru áhrifin sögð svipuð vægum áhrifum af amfetamíni.

Khatplantan þarf að komast til neytanda innan fimm til sex daga til þess að halda styrk sínum, að sögn Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Það hefur verið ansi mikil aukning á haldlagningum á þessari plöntu á Norðurlöndunum á síðustu árum þar sem yfirvöld hafa verið að leggja hald á þetta í tonnavís. En það eru tvö lönd í Evrópu sem hafa þetta ekki á bannlista og það eru Bretland og Holland. Það virðast í flestum tilvikum hafa verið dreifingarstaðirnir til annarra landa þannig að þessi sýn sem við erum að sjá í dag, þ.e.a.s. að þetta sé sent frá Íslandi, er svolítið ný,“ segir Karl Steinar.

Fjórir karlmenn voru handteknir í Reykjavík vegna málsins í vikunni. Þeir hafa allir komið áður til Íslands. Þrír þeirra eru frá Bretlandseyjum en sá fjórði frá Hollandi. Tveir þeirra eru upprunnir í Sómalíu, en Sómalía er einn helsti útflytjandi eiturlyfsins í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert