Nýfallinn snjór er í Esjunni í dag, 19.maí. Heldur kuldalegt er því um að lítast í höfuðborginni og víðar á landinu, því norðanlands snjóaði á fjallvegum í dag.
Veðurstofan spáir næturfrosti í öllum landshlutum um helgina og snjókomu á norðurlandi. Enn eru vegir greiðfærir um allt land, en að sögn veðurfræðings má reikna með talsverðri ofanhríð á fjallvegum norðaustan- og austanlands í kvöld og í nótt. Meira og minna mun snjóa samfellt ofna 200-300 metra, s.s. á Oddskarði, Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði. Eins er búist við snjómuggu á Mývatns- og Möðrudalsöræfum í kvöld, svo og í Víkurskarði og á Öxnadalsheiði.
Strekkingsvindur er á þessum slóðum og nokkuð blint. Á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum er einnig spáð minniháttar éljum sem valda munu hálku, jafnvel alveg niður undir láglendi í nótt og snemma í fyrramálið.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu í dag að útlit sé fyrir að þessi kalda tíð teygi sig yfir lengri tíma, eða í það minnsta 4 til 5 sólarhringa. Hámarkið verði ef að líkum lætur á laugardag. Auk þess er best að vera viðbúinn öllu ef marka má Einar, því viðburðir eins og þessir komi oft í lotum og endurtaki sig í tvö og jafnvel þrjú eða fjögur skipti. „Ég er ekki að segja að svo þurfi að verða nú, einfaldlega að lýsa því hvernig veðráttan á það til að haga sér í takt við orðtakið gamalkunnuga að sjaldan sé ein báran stök," segir Einar.