Ólík sýn á skattkerfið

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Mjög ólík sýn þingmanna á íslenska skattkerfið kom fram í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýndu skattahækkanir síðustu ára en fjármálaráðherra sagði að heildarskattbyrði hefði ekki hækkað.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðu um skattbyrði og skattahækkanir og sagði að störfum haldi áfram að fækka hér á landi, meðal annars vegna þess að svonefndur skattafleygur hafi stækkað mikið. Skattafleygur er munurinn á því sem starfsmaður ber úr býtum fyrir vinnu sína og þess sem hann fær í vasann eftir að skattar og opinber gjöld hafa verið dregin frá.

Sagði Tryggvi Þór, að ný skýrsla OECD sýndi, að skattafleygurinn á Íslandi hefði  stækkað meira en í öðrum löndum. „Við vitum að skattar hafa hækkað meira en góðu hófi gegndi en að við ættum nær heimsmet, það vissi ég ekki," sagði Tryggvi Þór. 

Hann sagði, að tekjuskattur hefði hækkað um 9% frá árinu 2007 og sé tekjuskattur einstaklinga nú sá annar hæsti innan OCED á eftir Danmörku. Virðisaukaskattur hefði hækkað um  4% og væri sá hæsti í heimi. Þá hefðu skattar á fjármagn, hagnað og lögaðila hækkað og fjölmargir skattar verið teknir upp.

Skattamálum væri nú svo komið, að nær enginn hvati væri til að stofna ný fyrirtæki og skapa ný störf. Ofan á það bættist óvissa  sem hamlaði fjárfestingu enn frekar. Sagði Tryggvi Þór að vissulega væri rétt,. að fjármál ríkisins séu í ólestri en aðrar aðferðir væru til að laga þau. Sjálfstæðismenn hefðu bent á að besta leiðin væri að endurheimta skattstofnana.

„Það er ekki hægt að skatta sig úr vandanum en það er hægt að skatta sig í vanda," sagði Tryggvi Þór.

Skattafleygurinn einn sá minnsti hér

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði skýrslan, sem Tryggvi Þór hefði vísað til, leiddi í ljós, að skattbyrði eða skattafleygurinn hér á landi væri enn  með því lægsta sem þekktist hjá vestrænum ríkjum. Steingrímur sagði, að þessi samanburður væri þó ekki einhlýtur vegna mismunandi skattkerfa.

Steingrímur sagði, að skattbyrðin hjá einhleypum einstaklingi með meðallaun sé sú þriðja lægsta í Evrópu, aðeins Írland og Sviss séu þar fyrir neðan. Samanborið við Norðurlöndin skæri Ísland sig úr og væri lægst.

Steingrímur sagði rétt, að hlutfallsleg hækkun á síðustu árum væri einna mest á Íslandi en ástæðan væri einkum vegna hækkunar tryggingargjalds. Að auki væri útvarpsgjald í fyrsta skipti tekið með í þessum útreikningum.

„Þetta er hinn alþjóðlegi samanburður á grundvelli hinna viðurkenndu vísinda um skattafleyginn og hann sýnir, að umhverfið að þessu leyti er eitt hið allra hagstæðasta á Íslandi í Evrópu og innan OECD," sagði Steingrímur.

Ótrúlegt fals

Tryggvi Þór sagði, að það væri ótrúlegt fals hjá fjármálaráðherra að birta tölur og tala um að Íslendingar séu í neðstu sætum varðandi skattbyrði. Sérstaklega væri tekið fram í úttekt OECD, að gjalda yrði varhug við þeim samanburði því lönd eins og Ísland væru með lífeyriskerfi utan við hið opinbera skattakerfi.

Þegar gert væri ráð fyrir þessu væru Íslendingar með sjötta stærsta skattafleyginn innan OECD og því gæti enginn mótmælt.

Tryggvi Þór sagði, að til að sýna hvernig skattkerfið virkaði mætti nefna, að í nýjum kjarasamningum hefði verið samið um 50 þúsund króna eingreiðslu til launþega. Atvinnurekendur þyrftu að greiða 54 þúsund krónur, launþeginn fengi 30 þúsund krónur en fjármálaráðherra fengi 24 þúsund krónur í ríkissjóð.

Klofbragð staðreyndanna

Steingrímur sagði, að svona væri brugðist við þegar vitnað væri í frumheimildir. Hann sagðist hafa tekið fram, að taka þyrfti tillit til mismunandi skattkerfa en Ísland væri fyrir neðan miðjan hóp Vestur-Evrópuríkja þótt gert væri ráð fyrir mismunandi lífeyriskerfum. 

Steingrímur sagði, að með þeim aðgerðum og breytingum á skattkerfinu, sem ríkisstjórnin hefði ráðist í, hefði tekist að stöðva tekjufall ríkisins en ekki meir. Í grófum dráttum héldi skattbyrðin sjó sem hlutfall af landsframleiðslu. „En við höfum breytt því talsvert, og af því erum við stolt, hverjir bera byrðarnar," sagði Steingrímur.

Hann sagðist hafa farið aðeins yfir tímamörk í ræðu sinni því  hann hefði ekki fengið frið til að halda ræðuna sökum frammíkalla „vegna þess að það kemur svo ofsalega við sjálfstæðismenn þegar þeir eru teknir á klofbragði staðreyndanna og liggja flatir." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert