Ísland hefur verið nokkuð áberandi í mótmælum á Spáni undanfarna daga. Taka mótmælendur sér búsáhaldabyltinguna og andstöðu almennings við afleiðingum kreppunnar til fyrirmyndar. Mikil mótmæli hafa verið á Spáni í aðdraganda sveitarstjórnakosninga um helgina.
Hefur íslenski fáninn meðal annars sést og mótmælaskilti með vísanir í Ísland í mótmælunum. Þúsundir manna héldu áfram mótmælum í Madrid, höfuðborg Spánar í morgun, og í fleiri borgum í landinu, fimmta daginn í röð. Það eru aðallega ungmenni, sem taka þátt í mótmælunum og krefjast m.a. aðgerða vegna mikils atvinnuleysis.
Á Facebook er spænskur hópur sem heitir „Ég vil líka byltingu eins og á Íslandi“ og er þar að finna ýmsar myndir frá mótmælunum af vísunum til Íslands.
Í lýsingunni á hópnum segir: „Þó að hér virðist sem ekki hafi neitt gerst, þá hafa þeir [Íslendingar] verið að berjast frá 2008. Okkur finnst það sanngjarnt að fólk viti hversu mikið þessi þjóð hefur barist til að ná fram réttindum sínum. Þar sem enginn (ó)fjölmiðill hefur sagt frá þessu þá endurómum við það með hjálp samskiptasíðna.“