Sýslumaðurinn á Selfossi gerir kröfu um að vélhjól bifhjólamanns verði gert upptækt og hann sviptur ökuréttindum með vísan til ákvæða í 107. grein umferðarlaga um stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti.
Varðar ákæran akstur mannsins frá Kömbunum og vestur Hellisheiði að kvöldi föstudagsins 30. júlí í fyrra og byggist krafan á fjórum hraðamælingum, tveimur á jörðu niðri og tveimur úr TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, umrætt kvöld.
Aðalmeðferð í máli sýslumannsins gegn manninum hófst hjá Héraðsdómi Suðurlands í gær og var henni frestað sökum þess að framburð eins vitnis skorti en heimildir blaðsins herma að Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari hyggist taka málið upp eins fljótt og kostur er.
Ákæran er fjölþætt og varðar m.a. fjórar hraðamælingar. Hinn ákærði játar á sig eina hlið ákærunnar sem tengist hraðamælingu lögreglumanns með ratsjármæli á lögregluhjóli en samkvæmt henni var hann á 145 km hraða.
Lögreglumaðurinn veitti bifhjólamanninum eftirför og benti svonefnd jafnhraðamæling þá til að hann væri á 245 km hraða.
Maðurinn fellst ekki á síðarnefndu mælinguna og segir lögmaður hans, Bjarni Hauksson, málsvörnina byggjast á því að umræddar jafnhraðamælingar séu ófullnægjandi.
Játar ökumaðurinn heldur ekki á sig ákærur vegna tveggja jafnhraðamælinga úr þyrlunni á sömu forsendu en samkvæmt þeim var hann annars vegar á 198 km hraða og hins vegar á 235 km hraða þegar mælingarnar fóru fram. Almennur hámarkshraði á þessari leið er 90 km.