Erfitt að horfa á Krumma líða illa

Gunnar Hrafn í faðmi Signýar móður sinnar.
Gunnar Hrafn í faðmi Signýar móður sinnar. mbl.is/Golli

Áhrifamiklar ljósmyndir af krabbameinsmeðferð drengsins Gunnars Hrafns Sveinssonar, sem stundum er kallaður Krummi, birtast í Sunnudagsmogganum á morgun, og er þar rætt við foreldrana, Signýju Gunnarsdóttur og Svein Benedikt Rögnvaldsson.

Kjartan Þorbjörnsson, Golli, ljósmyndari Morgunblaðsins, hefur fylgt drengnum og fjölskyldu hans eftir frá öskudegi í fyrra. Hann hafði samband við Signýju er hann frétti af því að Krummi hefði greinst með hvítblæði, en Signý var þá blaðamaður á Morgunblaðinu.

Ráðlagt að þiggja boðið

„Ég frétti tiltölulega seint af veikindum barnsins, það var sennilega tveim vikum eftir greiningu sem ég heyrði það á skotspónum í vinnunni,“ segir Kjartan.

 „Við höfðum unnið saman að nokkrum verkefnum og ég þekkti hana því ágætlega, en ekkert þó til hennar fjölskylduhaga. Ég sá strax að þetta gæti orðið sterkt efni, en um leið að þetta var viðkvæmt mál. Ég vildi því ekkert trana mér fram, lét nægja að senda tölvupóst og bauðst til að mynda meðferðina. Þá hafði ég lesið bloggið hennar Signýjar og sá að hún var að skrifa sig út úr þessu. Ég setti tilboðið fram þannig, að við gætum hugsanlega gert meira úr þessu í framtíðinni, en því fylgdu engar skuldbindingar. Frekar en að láta þetta afskiptalaust, þá vildi ég bjóða fram mína aðstoð.“

Signý sendi strax svarbréf, þakkaði kærlega fyrir og sagðist ætla að íhuga málið og spyrja fólk í kringum sig álits. Svo hringdi hún daginn eftir og bað Kjartan um að hitta sig. Þá hafði hún talað við Svein manninn sinn, fagfólk af spítalanum og fólk sem hafði gengið í gegnum krabbameinsmeðferð, og hvöttu allir hana til að þiggja boðið.

Hittust fyrst á öskudaginn

„Ég fór og hitti fjölskylduna og drenginn í fyrsta skipti á öskudaginn í fyrra,“ segir Kjartan. „Signý lagði áherslu á það strax frá byrjun að ég gæti hætt við hvenær sem ég vildi, hún óttaðist að ég hefði sökkt mér í eitthvað sem ég vissi ekki hvað væri, en það hvarflaði aldrei að mér. Það er misjafnt hvað ég varði miklum tíma hverju sinni, stundum var ég marga klukkutíma á dag, marga daga í röð, en svo komu rólegri tímar þegar allt gekk eðlilega. Ég hitti þau jafnvel ekkert í tvær vikur.“

En það leið aldrei langur tími á milli. „Við höfum meira að segja farið saman í sumarfrí, útilegur og fleira,“ segir Kjartan. „Upp úr þessu hefur myndast ómetanlegur vinskapur. Fjölskyldumynstrið er líka það sama, ég og konan mín erum með tvö börn á sama aldri og þau, fimm ára stelpu og átta ára strák. Við höfum verið saman jafnlengi og gift jafnlengi. Og það varð til þess að maður upplifði þetta ofboðslega persónulega, samsamaði sig svo sterkt því sem var að gerast hjá þeim.“

Og það var oft erfitt að horfa upp á veikindi Krumma. „Oft og tíðum, aðallega fyrstu mánuðina þegar lyfjameðferðin var hvað erfiðust, þá fannst mér erfitt að horfa á hann svona þjáðan og geta ekkert gert í því,“ segir Kjartan. „Svo var það skrítin tilfinning að verja mörgum tímum með þeim erfiðan dag, þar sem Krummanum leið virkilega illa og foreldrarnir voru áhyggjufullir, og koma heim í eðlilega lífið, fletta í gegnum myndir dagsins og sjá þar myndir sem maður var ánægður með. Það togaðist á í manni þessi skrítna tilfinning að geta verið ánægður með eitthvað sem maður náði að mynda upp úr svona erfiðum aðstæðum.“

Fimmti fjölskyldumeðlimurinn

En Kjartan náði fljótt að hverfa inn í bakgrunninn og verða partur af spítalalífinu. „Fólkið á spítalanum tók mér vel, hjálpaði bara til ef þurfti, en ég reyndi að vera bara fluga á vegg. Afskiptin voru lítil, ég myndaði aldrei með flassi, notaði bara það ljós sem var, reyndi aldrei að stilla upp eða skipta mér af neinu, og setti strax þá reglu að fólk þyrfti að vita að það væri aldrei neinn fyrir mér. Það þurfti aldrei neinn að færa sig, sama hvar ég var. Ég varð í raun fimmti fjölskyldumeðlimurinn um tíma.“

Með myndafrásögninni opnast heimur, sem hingað til hefur verið lokaður flestum. „Það var mín ætlun,“ segir Kjartan. „Í gegnum tíðina hafa samfélagssögur verið mitt uppáhaldssvið í ljósmyndun. Allt frá ljósmyndanáminu hef ég sagt að menn þyrftu ekki að fara til exótískra útlanda til að taka flottar og áhrifaríkar myndir. Það er svo margt að gerast í kringum mann sem enginn ljósmyndari sinnir. Til marks um það greinast tólf börn á ári með krabbamein en samt hefur enginn lagt svona mikla vinnu í að segja sögu þeirra. Minn áhugi liggur þarna og mér finnst mikilvægt að geta dregið fram sögu úr nærumhverfinu sem hefur áhrif á fólk.“

Kjartan hefur ljósmyndað meðferðina frá miðjum febrúar í fyrra og því verki er ekki lokið, þó að ítarleg myndafrásögn birtist í Sunnudagsmogganum. „Við höfum ákveðið að klára lyfjameðferðina, eitt og hálft ár er eftir af henni. Og einhvern tíma í framtíðinni þegar fjölskyldan er tilbúin munum við gera meira úr þessu, til dæmis bók. Myndirnar eru óteljandi og það sem við sýnum í Sunnudagsmogganum er bara brotabrot af því sem til er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert