Meirihluti hagsmunaaðila á þeim kafla Laugavegar sem fyrirhugað er að breyta í göngugötu í sumar telur að breytingin glæði miðborgina lífi. Þetta kom fram þegar starfsmenn Reykjavíkurborgar kynntu hagsmunaðaðilum útfærslu lokunar 300 metra kafla frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg fyrir bílaumferð en þar eru starfræktar 40 verslanir og 25 veitingastaðir.
Tillaga umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur felst í því að götukaflinn verði lokaður fyrir bílaumferð frá 17. júní – 22. ágúst. Aðeins 17 bílastæði eru innan þessa svæðis en fjöldi bílastæði er í nærliggjandi götum og bílastæðahúsum. Markmiðið er að skapa umhverfi á Laugaveginum sem styrkir mannlíf, menningu og verslun í miðborginni. Framtíðarsýnin er að Laugavegurinn verði vinsæl sumargata í Reykjavík sem dragi til sín jafnt Íslendinga sem erlenda gesti.
Kostir göngugötunnar felast meðal annars í bættu aðgengi fyrir fleiri hópa, betri hljóðvist, minni mengun og auknu rými fyrir listrænar uppákomur og ef til vill götumarkaði.
Akstur bíla verður eftir sem áður heimilaður um þvergötur á þessum kafla. Starfsmaður verður einnig ráðinn til að sinna göngugötunni í sumar. Hann mun hafa umsjón með þrifum og getur brugðist fljótt við ábendingum hagsmunaaðila, að því er fram kemur í frétt frá Reykjavíkurborg.