Starfsfólki fyrirtækisins Já verður fækkað um 6–8 á næstunni og þjónustuveri Já á Akureyri verður lokað. Fyrirtækið segir, að á móti verði þjónustuver fyrirtækisins í Reykjanesbæ og Reykjavík efld.
Aðgerðirnar koma til framkvæmda í haust. Nú starfa um 120 manns hjá fyrirtækinu, sem annast rekstur 118, vefsvæðisins já.is og sér um útgáfu Símaskrárinnar.
Alls starfa nú nítján fastráðnir starfsmenn hjá þjónustuverinu á Akureyri í 18,5 stöðugildum. Hluta þess starfsfólks verður boðin vinna hjá þjónustuverum Já í Reykjavík og Reykjanesbæ.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir í tilkynningu að fyrirtækið neyðist til að taka erfiðar ákvarðanir. Það sé á ábyrgð stjórnendanna að tryggja hag allra starfsmanna og viðskiptavina Já til framtíðar með góðum rekstri. Með þessum aðgerðum eru þeir að sinna þeirri skyldu.