Settar hafa verið reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. Reglurnar fjalla um rannsóknir, sem ekki þarf dómsúrskurð fyrir.
Innanríkisráðuneytið segir, að þessar rannsóknaraðferðir séu ekki nýjar af nálinni heldur sé verið að formfesta þær með reglum frá innanríkisráðuneytinu. Áður voru í gildi leiðbeinandi reglur sem ríkissaksóknari setti árið 1999 og byggðust á skýrslu um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu.
Drög að reglunum voru unnin af hópi á vegum ríkissaksóknara í samræmi við sakamálalög. Þau tóku breytingum í meðferð ráðuneytisins. Sett eru skýrt afmörkuð skilyrði fyrir því hvenær má nýta rannsóknarúrræði sem þessi.
Í reglugerðinni er kveðið á um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til að lögregla geti beitt tálbeitum, flugumönnum, haft fíkniefnasendingu undir stöðugu eftirliti, átt samband við uppljóstrara úr glæpahópum, beitt svonefndri skyggingu, sem gengur út á að fylgjast með meintum glæpamanni á almannafæri, notast við dulargervi, til dæmis til að koma póstsendingu sem inniheldur fíkniefni á leiðarenda og skráð upplýsingar sem birtast á vefsíðum eða átt í netsamskiptum án þess að auðkenni lögreglu komi fram.
Kveðið er sérstaklega á um þau brot sem reglugerðin nær til og varða fangelsi skemur en til átta ára. Þar á meðal eru kynferðisbrot á borð við vændi og nettælingu sem beinist að börnum, auðgunarbrot og fíkniefnabrot.
Þá er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarúrræðunum megi beita gegn skipulagðri glæpastarfsemi en við henni sem slíkri liggur fjögurra ára fangelsi.
Loks er beiting flugumanna háð sérstöku samþykki ríkissaksóknara umfram aðrar rannsóknaraðferðir en það rannsóknarúrræði felur í sér mest brot á friðhelgi einkalífs af þeim aðgerðum sem kveðið er á um í reglugerðinni.