Útlit er fyrir áframhaldandi snjókomu eða él á Norður- og Austurlandi næstu daga, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Næturfrost var víða um landið í nótt.
Segja má að landið skiptist í tvennt með tilliti til veðurs um helgina. Sunnanlands verður víðast hvar bjart og fínt veður megnið af helginni, en bjart með köflum austast á Suðurlandi og á Breiðafirði.
Áfram verður kalt í veðri norðanlands um helgina og verður víða talsverð snjókoma eða slydda, að sögn veðurfræðings á vakt hjá Veðurstofu Íslands.
Jörð var orðin hvít víða á Norðurlandi í gær og fengu Akureyringar sinn skerf af því. Reikna má með því að jörð verði áfram hvít víða norðanlands um helgina. Það verður éljagangur norðvestantil en samfelldari úrkoma á Norður- og Austurlandi.