Allir urðu fyrir eignabruna

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir.
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir.

„Þetta eru alveg ótrúleg ummæli hjá fjármálaráðherra. Mér finnst ótrúlegt að hann skuli hafa látið þetta út úr sér,“ segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, um þau ummæli Steingríms J. Sigfússonar að „venjulegt fólk“ hafi ekki orðið fyrir eignabruna.

„Það er margt í bígerð hjá okkur,“ segir Andrea Jóhanna, spurð hvort samtökin hyggist auka þrýstinginn á stjórnvöld á næstunni.

Steingrímur lét umrædd ummæli falla á flokksráðsfundi VG í Reykjavík í gær en þar kom fram sú skoðun ráðherra að landið væri tekið að rísa í efnahagsmálum.

Verðbólguskotið kom illa við alla

Andrea Jóhanna segir ekki hægt að taka út einn hóp þegar eignabruni er annars vegar. Allir hafi tapað á hruninu.

„Allir urðu fyrir eignabruna vegna þess að verðbólguskotið á verðtryggðu lánin kom við öll heimili landsins. Þessi eignatilfærsla sem á sér stað á verðbótunum á verðtryggðum lánum snertir alla, alla nema þá sem eiga skuldlausar eignir. Þannig að það er ekki hægt að taka út einn hóp og segja „Þið urðuð ekki fyrir þessu“, nema fólk eigi þá skuldlaus heimili. Ég myndi segja að allt venjulegt fólk, allt fólk sem er með skuldir, hafi orðið fyrir eignatjóni,“ segir Andrea Jóhanna og leggur áherslu á að hún eigi þá alls ekki eingöngu við heimili sem séu yfirskuldsett.

Það er alveg rétt hjá ráðherra að eignatjónið hjá fólki er mismikið. Það er ekki svo að allir séu á hausnum eða séu að fara í gjaldþrot. Það urðu hins vegar allir fyrir þessu áfalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert