Álverið á leiðinni

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir tekið að létta til í efnahagslífi landsins. Þá segir hún fyrirhugaðar álversframkvæmdir í Helguvík í réttum farvegi. Þetta kom fram í framsögu hennar á fundi samfylkingarmanna í Reykjanesbæ í morgun.

Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, sat fundinn sem fór fram í húsi samfylkingarmanna að Víkurbraut 13 í Reykjanesbæ. Hann lýsir fundinum svo: 

„Þetta er síðasti fundurinn í tíu funda röð sem þingmenn Suðurkjördæmis eru búnir að vera með á vegum Samfylkingarinnar um allt kjördæmið. Þetta hafa verið fjörugir og fjölsóttir fundir. Við vorum með fullt hús hjá okkur í morgun.

Forsætisráðherra slóst í för með okkur á síðasta fundinum og var með framsögu þar sem hún fór yfir árangur ríkisstjórnarinnar og hvað væri fram undan. Hún fór líka yfir atvinnumálin á Suðurnesjum og þær aðgerðir sem voru ákvarðaðar á ríkisstjórnarfundinum [á Suðurnesjum] í byrjun nóvember og búið er að ljúka við eða eru í ferli. Þá reifaði forsætisráðherra stöðu mála í stóru atvinnuverkefnunum á Suðurnesjum; álverinu í Helguvík, kísilverinu og gagnaverinu á Ásbrú."

Fram kom í máli hennar að hún er bjartsýn á framgang verkefnisins í Helguvík. Hún undirstrikaði mikilvægi þess fyrir atvinnusköpun, ekki aðeins á Suðurnesjum heldur fyrir hagvöxtinn í landinu. Menn bíða eftir niðurstöðu samningaviðræðna, eða gerðardómsins,“ segir Eysteinn og vísar til stöðu fyrirhugaðra álversframkvæmda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert