Einhugur í VG um að styðja stjórnina

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Eggert Jóhannesson

„Þetta er búinn að vera mjög góður fundur, kraftmikill og vel mætt miðað við árstíma. Það á margt landsbyggðarfólk erfitt með að koma á þessum árstíma en engu að síður eru bændur úr fjarlægum landshlutum mættir hér til að leggja sitt af mörkum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.

Flokksráðsfundur VG í Reykjavík hófst í gær og lýkur síðari deginum um hádegisbilið í dag. 

En telur Steingrímur að þau sár sem opnuðust í flokknum við brotthvarf þremenninganna, Atla Gíslasonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Mósesdóttur, séu að gróa?

„Brotthvarf þeirra hefur komið við sögu í ályktunum og í ræðum sumra fundargesta eins og til dæmis frá Suðurlandi Margir ræðumenn hafa tekið fram að þeim finnst andrúmsloftið mildara og stemningin jafnvel betri en til dæmis í nóvember. Það er heldur bjart yfir mönnum mundi ég segja.

Auðvitað er þetta búið að vera erfitt en ég heyri það hjá langflestum, meðal annars í ræðum, að menn ætla ekkert að láta það trufla sig of mikið heldur að þétta raðirnar og halda ótrauðir áfram í baráttunni. Það eru líka skilaboðin sem við fáum frá kjördæmisráðum, svæðisfélögum, bæjarmálafélögum og öðrum grunneiningum flokksins að fólk styður þessa ríkisstjórn og vill að hún haldi áfram.“

- Þú sérð þá sem formaður flokksins ekkert að vanbúnaði með að þið getið haldið áfram í stjórnarsamstarfinu á þeirri braut sem lögð hefur verið?

„Nei. Við fáum mikla hvatningu til að gera það og þá förum við ekki að gefast upp. Og eins og ég sagði í minni ræðu væri allra síst ástæða að gera það núna þegar betur er farið að horfa eftir langa og stranga baráttu í tvö ár og fjóra mánuði,“ segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert