Norðurál á Grundartanga segir það rangt að flúormælingar á kjálkum sauðfjár í Hvalfirði fyrir árið 2010 hafi leitt í ljós að öll sýni frá 12 bæjum, þar sem fé var rannsakað, hafi reynst vera yfir viðmiðunarmörkum.
Fyrirtækið sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna umræðu um flúormengun og áhrif þess á búfé í nágrenni Grundartanga. Fyrirtækið segir mikilvægt að umræða um flúor í búfé byggist á staðreyndum
„Undanfarna daga hefur verið fjallað um að flúor hafi mælst yfir hættumörkum í búfé í Hvalfirði. Umræðan hefur að hluta verið villandi og því er ástæða til að benda á eftirfarandi:
Flúor er hvorki hættulegur heilsu manna né dýra nema í mun meira magni en mælist í nágrenni álversins á Grundartanga, enda er allri losun og umhverfisáhrifum sett afar ströng mörk í starfsleyfi fyrirtækisins. Flúor sest fyrir í grasi og laufi og þess vegna er fylgst með uppsöfnun flúors í grasbítum. Engin ástæða er til þess að ætla að flúor frá Grundartanga hafi áhrif á fólk í nágrenni svæðisins. Þannig er búseta á þynningarsvæði álvera t.d. aðeins bönnuð á Íslandi en leyfð annars staðar, t.d. í Noregi.
Losun flúors, sem og annarra efna, hefur verið innan settra marka. Þó varð í einangruðu tilviki árið 2006 vart við áberandi hækkun á magni flúors í gróðri þegar bilun olli þvi að reykhreinsikerfi álversins voru að hluta óvirk í um 20 klukkustundir. Það atvik hefur verið rannsakað í þaula.
Norðurál hefur fengið álit dýralækna á veikindum hrossa á Kúludalsá og komust þeir að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun hefur nú komist að, að ekki væru tengsl á milli veikinda hrossanna og styrks flúors í umhverfinu. Þrátt fyrir þetta bauð Norðurál, í samvinnu við Umhverfisstofnun, eiganda umræddra hrossa að standa að ítarlegri rannsókn á veikindum hrossanna í apríl 2009. Eigandinn hafnaði þessu boði.
Við skoðun á fé á nágrannabæjum álversins á Grundartanga hafa aldrei fundist skemmdir eða kvillar sem rekja má til flúors. Á vef Kjósarhrepps og víðar er því haldið fram að flúormælingar á kjálkum sauðfjár í Hvalfirði fyrir árið 2010 hafi leitt í ljós að öll sýni frá 12 bæjum, þar sem fé var rannsakað, hafi reynst vera yfir viðmiðunarmörkum. Þetta er einfaldlega rangt.
Beit búfjár innan þynningarsvæðis álvera er bönnuð. Þess eru þó dæmi á liðnum árum að fé og hross hafi verið á beit innan þynningarsvæðisins á Grundartanga og fyrsta áratuginn í starfsemi álversins var ítrekað heyjað innan þess, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir Norðuráls. Því er nauðsynlegt að skoða sögu sauðfjár með hækkaðan flúorstyrk í beinum, enda eru líkur á að fé sem verið hefur á beit innan þynningarsvæðisins eða verið gefið hey þaðan, mælist með hærri flúorstyrk í beinum en ella. Þrátt fyrir þetta hafa ekki sést nein staðfest merki áhrifa flúors í sauðfé í nágrenni álversins.
Norðurál leggur metnað sinn í að haga rekstri þannig að umhverfisáhrif starfseminnar séu lágmörkuð. Norðurál fylgir í hvívetna þeim ströngu kröfum sem fyrirtækinu eru settar í starfsleyfi og eru einhverjar þær ströngustu í heimi,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.