Hlaup í fyrsta lagi eftir 12 tíma

Þessi glæsilega mynd af gosmekkinum í Grímsvötnum var tekin frá …
Þessi glæsilega mynd af gosmekkinum í Grímsvötnum var tekin frá Kirkjubæjarklaustri. Ljósmynd/Sigurlaug Linnet

Vísindamenn eru nú farnir í loftið í átt að Vatnajökli til að kanna gosið sem hófst í Grímsvötnum á sjöunda tímanum. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun segir megintilgang ferðarinnar að meta nákvæma legu gosstöðvanna, til að hægt sé að áætla hugsanlega ísbráðnun.

„Stærð hlaups fer algjörlega eftir því hvar gosstöðvarnar liggja. Þetta þarf alls ekki að verða mikið hlaup, ef þetta er innan Grímsvatnaöskjunnar þá verður hlaupið ekki stórt og gæti bæst við vatnið í Grímsvötnum. En ég held það sé eðlilegt að segja að enn sé fullkomin óvissa um hversu mikill ís bráðnar."

Að sögn Freysteins er þó ljóst að það taki vatn um 12 klukkustundir að renna frá Grímsvötnum undir jöklinum og verði hlaup megi því í fyrsta lagi eiga von á því í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert