Ísland lokar á Grikki

Akrópólishæð, Aþenu.
Akrópólishæð, Aþenu. Kristinn Ingvarsson

Sú tilkynning norskra stjórnvalda að Noregur, Ísland, Liechtenstein hafi fryst 42 milljón bandaríkjadala stuðning til grísku ríkisstjórnarinnar hefur vakið talsverða athygli í heimspressunni.

Fram kemur á vef Wall Street Journal að greint sé frá ákvörðuninni á vef norska utanríkisráðuneytisins. Umræddir styrkir séu þróunarstyrkir ætlaðir til verkefna er varða félags- og efnahagsmál í Mið- og Suður-Evrópu. Þegar hafi verið ráðstafað 13 milljónum norskra króna til þessara verkefna en samstarfið við Grikki mun vera með þeim fyrirvara að þeir leggi til 50% fjármagnsins með mótframlagi.

Ríkin þrjú munu hafa sent Grikkjum fé en óljóst mun vera hvort það hafi komist til réttra aðila. Hafa ríkin því lagt fram fyrirspurn til grískra stjórnvalda.

Slæmt þegar Ísland treystir þér ekki lengur

Þá segir í fyrirsögn á fréttaskýringu á vef CTV News að „Íslandi eigi í útistöðum við Grikkland: Hversu sanngjarnt er það?“ en greinin birtist einnig í kanadíska dagblaðinu Globe and Mail.

Hefur greinarhöfundur, Michael Babad, grein sína á þessum orðum.

„Þú veist að þú hefur svo sannarlega náð lægstu lægðum þegar jafnvel Ísland, sjálft vörumerki efnahagshruns, treystir þér ekki,“ segir í lauslegri þýðingu á íslensku.

Jafnframt segir á vef Southeast European Times að féð hafi átt að renna til verkefna á sviði heilbrigðis- og umhverfismála. Er það ekki útskýrt frekar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert