„Í því ljósi má segja að ríkisstjórn Íslands sé í raun að viðhalda mjög sjúku bankakerfi og upphefja leikreglur „Gamla Íslands“. Fjármálaofbeldið gagnvart heimilunum er gegndarlaust og óforskammað, því verður að linna,“ segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
Eins og rakið var á fréttavef Morgunblaðsins fyrr í dag undrast Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, þau ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að „venjulegt fólk“ hafi ekki orðið fyrir eignabruna.
Samtökin átelja framgöngu stjórnvalda þegar skuldavandi heimilanna er annars vegar.
„Hagsmunasamtök heimilanna líta mjög alvarlegum augum þá staðreynd sem nú er komin fram með skýrslu fjármálaráðherra að núverandi ríkisstjórn samdi í lok árs 2009 við bankana um að innheimta sem allra mest af lánasafni sem þó var búið að gefa gríðarlegan afslátt af og hefði átt að ganga áfram til lántakenda.
Hluti af því sem myndi innheimtast ætti þannig að falla í skaut nýju eigenda bankanna og hluti að ganga til fyrrum eigenda. Fjármálaráðherra hefur með þessu móti gefið bönkunum tilefni til að útbúa bónuskerfi starfsmanna til að endurheimta sem mest af lánasafninu og ekki er tekið tillit til þess að allir lántakendur á landinu verða fyrir óréttlætinu.“
„Markaðsmisnotkun fjármálastofnana“
Samtökin segja heimilin skorta hvata til að reisa við fjárhag sinn.
„Enginn hvati er til endurreisnar heimilanna eða að fara fram með sanngjörnum og réttlátum hætti með því að leiðrétta það verðbólguskot og gengishrun sem íslensk heimili eru nú að taka á sig í margvíslegri mynd með hækkun höfuðtóls lána og kaupmáttarskerðingu.
Þó er ljóst að það er tilkomið vegna markaðsmisnotkunar fjármálastofnana, en þeim er með sjúkum hætti hjálpað til að halda áfram viðteknum hætti til að mergsjúga heimili landsins. Í því ljósi má segja að ríkisstjórn Íslands sé í raun að viðhalda mjög sjúku bankakerfi og upphefja leikreglur "Gamla Íslands". Fjármálaofbeldið gagnvart heimilunum er gegndarlaust og óforskammað, því verður að linna,“ segir í tilkynningunni.